Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

umferðarlög.

280. mál
[14:18]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svo að ég byrji nú þar sem við enduðum, þar sem ég er ekki með umferðarlögin fyrir framan mig, hafa sveitarfélögin svigrúm upp að vissu marki — eða veghaldari, sem oftast er sveitarfélögin en getur líka verið Vegagerðin — og það eru viss skilyrði. Ég myndi halda að það væri nokkuð bundið að þetta yrðu 15 km, hvorki hærra né lægra, varðandi vistgötur af því að þarna sértegund á götu, en þar sem sveitarfélögin hafa svigrúm eru breytilegar tegundir af götum. Þarna er um að ræða ákveðna tegund og við segjum hver hraðinn er þar. Ég held að það sé nokkuð bundið hvað það varðar án þess að geta fullyrt það þar sem ég hef lögin ekki fyrir framan mig. En ef við færum að breyta refsirammanum gagnvart þessu værum við farin að draga úr skýrleika laganna hvað það varðar að hvar sem þú ert þegar þú keyrir á tvöföldum hámarkshraða komi til sviptingar ökuréttinda og annars slíks. Svo var líka fjallað um að það væri svolítið erfitt að mæla, út frá vikmörkum og öðru slíku. Það er svo stutt á milli þarna að það gæti orkað tvímælis hve litlu munar á milli þess að vera sviptur ökuréttindum eða ekki. Að lokum vil ég líka benda á varúðarreglu umferðarlaga: Ef börn eru að leik og ef það er eitthvað í umhverfinu sem segir að þú getir ekki keyrt á 15 km hraða máttu ekki keyra á 15 km hraða þó að það sé hámarkshraðinn. Þar erum við með varúðarreglu umferðarlaganna og aðrar reglur sem taka þarf inn í myndina.