Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

umferðarlög.

280. mál
[14:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Gott og vel, þetta með skýrleika laganna. Ég held að við getum öll verið sammála um að eðli vistgatna er töluvert annað en annarra gatna sem ekið er um í okkar ágæta kerfi. Ef við ættum einhvers staðar að láta aðra hagsmuni ganga fyrir, skýrleikanum þ.e., þá er það kannski akkúrat þarna. Ég hef satt best að segja töluverðar áhyggjur af því að þetta dragi úr þeim markmiðum sem verið er að ná fram með vistgötum en sagan hefur sýnt að þær eru gríðarlega mikilvægar. Ég bý sjálf við eina og þekki vel hversu gott það er að hafa svona svæði þar sem menn, tæki og dýr geta lifað saman í sátt og samlyndi. Ég held að við eigum eftir að bíta úr nálinni með þetta því að þessi hækkun, þó að hún líti ekki út fyrir að vera mikil á pappír, að fara úr 10 km upp í 15 km, skiptir heilmiklu máli þegar kemur að samanburðinum við gönguhraða fólks almennt. Við erum allt í einu farin að horfa fram á að bílar aki á töluverðum hraða niður götur sem þeir fóru áður mjög hægt niður. Það getur vel verið, og ég vona að framsögumaður hafi rétt fyrir sér í því, að akstursskilyrði skipti máli og mögulega verður það svo, það er ekki alltaf sem maður óskar þess hér úr þingsal, að þessi breyting fari bara fram hjá sem flestum, að þeir haldi áfram að aka 10 km hraða í vistgötum. Ég vona það. Ég hef í sjálfu sér ekki neina spurningu. Mér finnst þetta óþörf breyting, ég sé ekki rökin fyrir henni. Ég ætla ekki að fara að gera fólki upp skoðanir en ég sé einfaldlega ekki af hverju gripið var til þessarar breytingar (Forseti hringir.) á meðan verið var að endurskoða lögin út af alls konar öðrum mikilvægum atriðum. Mér finnst þetta geðþóttaákvörðun sem ég hef ekki séð rökin fyrir enn þá. Ég óttast að þetta muni ekki verða til góðs.