151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

umferðarlög.

280. mál
[14:24]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að koma inn í þetta mál. Nefndarálitið er frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem ég er ekki hluti af og ég ætlaði að útskýra mína afstöðu. Í stuttu máli þá er þetta — nú er ég að tala um trúnaðarlækna þeirra ökumanna sem vafi leikur á að uppfylli heilbrigðisskilyrði — ákvæði fellt úr lögunum, þ.e. ákvæði um trúnaðarlækni Samgöngustofu er fellt út úr lögunum og þetta er sett aftur í gamla horfið, þ.e. að leita eigi til einhvers læknis. Mér finnst þessar skýringar ansi furðulegar, herra forseti, eins og stendur hér, að Samgöngustofa hafi talið þessa skipan mála nær óframkvæmanlega. Mér finnst þetta einföld skýring og ódýr, þ.e. að stjórnsýslustofnun eins og Samgöngustofa geti raunverulega, eftir að lagaákvæði kveður á um hlutverk hennar að einhverju leyti, eins og hér um ræðir, sagt að hún geti ekki sinnt hlutverki sínu. Mér finnst þetta ódýr afsökun og alls ekki boðleg fyrir svo stóra stofnun sem Samgöngustofa er, að hún geti raunverulega yppt öxlum og sagt: Við getum ekki gert þetta. Þetta er óframkvæmanlegt. Mér finnst það ódýrt. Það fer í taugarnar á mér ef framkvæmdarvaldið getur raunverulega hunsað svona bein lagafyrirmæli. Það er aðalástæðan fyrir því að ég er ekki á þessu áliti. Ég er mótfallinn svona vinnubrögðum og einnig því að nefndin skuli ekki finna betri lausn en að hverfa aftur í gamla farið, sem er meingallað að mörgu leyti líka, og með fullri vitneskju hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Kerfið, sem nú á að hverfa aftur til, er meingallað. Það veit hv. umhverfis- og samgöngunefnd en samt erum við að fara aftur þangað. Þetta eru auðvitað engin vinnubrögð, herra forseti. Ég get ekki samþykkt þetta og geta ekki fallist á þetta og er þess vegna ekki á nefndarálitinu.

Herra forseti. Það er gamalt vandamál þegar ökumenn missa hæfi sitt af heilbrigðisástæðum að sumir þrjóskast við og halda áfram akstri þangað til þeir lenda annaðhvort í slysi eða óhappi sem veldur því að lögreglan hefur afskipti af þeim. Af því eru til ótal dæmisögur sem ég kann nú nokkrar sjálfur úr mínu starfi sem fyrrverandi lögreglustjóri. Síðan eru þeir ökumenn sviptir ökurétti og fara til læknis. Við erum að hverfa aftur til þeirra tíma þegar viðkomandi ökumaður fer til heimilislæknisins sem oft á tíðum á mjög erfitt með að neita viðkomandi um vottorð. Sumir hafa bein í nefinu og geta það en aðrir ekki. Það er allt of algengt að menn fara til læknis sem þeir vita að þeir fá vottorð hjá. Það er staðreynd málsins, ef ég tala bara hreint út. Og ef þeir fá ekki vottað hjá þessum lækni fara þeir bara til þess næsta.

Mér finnst einboðið, herra forseti, að hér yrði tiltekið að viðkomandi ætti að leita til öldrunarlæknis þó ekki væri annað og fá vottorð hjá öldrunarlækni. Auðvitað eru viss vandamál í því fólgin vegna þess að læknar eru af skornum skammti og sjaldgæfir víða úti á landi og kallar það auðvitað á margar ferðir fyrir þá aðila sem þurfa að sækja sér slík vottorð. Þetta er ákveðið vandamál og þetta er kannski vandamálið sem Samgöngustofa stóð frammi fyrir, að geta ekki sinnt öllu landinu sómasamlega. Það að bjóða fólki úti á landi að koma í bæinn til að leita til trúnaðarlæknis Samgöngustofu var kannski það sem var illframkvæmanlegt, ég veit það ekki. Ég veit það ekki nákvæmlega. En það eru þessi vinnubrögð sem ég er mótfallinn og mér finnst það ákveðin uppgjöf að bakka til þessa fyrirkomulags sem áður var, vitandi að það er ekki nægilega gott og ekki endanleg lausn, herra forseti.