151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá allsherjar- og menntamálanefnd um tillögu til þingsályktunar um nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Nefndinni bárust nokkrar umsagnir um málið og fékk einnig til sín gesti. Ég ætla ekki að nota tímann hér til að lesa það allt saman upp en áhugasamir geta kynnt sér það í þingskjalinu sem nefndarálitið er á.

Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks komi í stað fyrri þýðingar sem fylgdi með tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem varð að þingsályktun nr. 61/145 árið 2016. Að mati nefndarinnar samræmist ný þýðing mun betur grundvallarhugmyndum samningsins en fyrri þýðing og gestir nefndarinnar og umsagnaraðilar voru á einu máli um að nýja þýðingin væri betri. Þá tekur nefndin undir sjónarmið um mikilvægi þess að stjórnvöld ráðist í átak til að kynna nýja þýðingu samningsins og um leið leita leiða til að taka úr umferð eldri og mismunandi útgáfur af samningnum. Ég vil undirstrika að það er mjög mikilvægt að þetta verði gert. Það eru ekki einungis stjórnvöld og ráðuneyti sem þurfa að gera þetta á sínum heimasíðum og á sínum vefjum heldur vil ég líka biðla til félagasamtaka sem hafa birt þýðingarnar, m.a. til að auka aðgengi fólks að samningnum, að skipta þeim út fyrir þessa nýju þýðingu sem ég á von á að við lögfestum hér á allra næstu dögum. Þá leggur nefndin einnig áherslu á að þýðingin verði sett fram á aðgengilegu formi og verði m.a. gefin út á táknmáli og blindraletri.

Þá komu fram sjónarmið um mikilvægi þess að almennar athugasemdir, eða það sem á ensku kallast „general comments“, sem gefnar hafa verið út um túlkun einstakra ákvæða samningsins, verði einnig þýddar og gerðar aðgengilegar á auðlesnu formi. Þær athugasemdir eru mikilvægur liður í því að gera fötluðu fólki kleift að skilja og þekkja réttindi sín og standa vörð um þau. En einnig til þess að auka þekkingu og skilning almennings á samningnum, þó einkum þeirra sem starfa til að mynda í réttarvörslukerfinu eða í félags- og heilbrigðiskerfinu. Þetta er nauðsynlegt til þess að allur almenningur geti kynnt sér og tileinkað sér þennan samning því að það er ekki nóg að fatlað fólk eingöngu þekki innihald hans og þau réttindi sem hann á að veita. Það munu aldrei verða alvörubreytingar og samningurinn mun aldrei öðlast fullt vægi nema samfélagið allt skilji mikilvægi hans. Í ljósi þeirrar vinnu sem liggur til grundvallar við nýja þýðingu samningsins telur nefndin æskilegt að ráðist verði í að þýða þessar almennu athugasemdir og tryggja enn frekar vernd réttinda sem um ræðir. Í þeim efnum er mikilvægt að halda áfram að eiga víðtækt samráð við fatlað fólk og aðra hagsmunaaðila.

Herra forseti. Að lokum leggur nefndin til orðalagsbreytingar á texta þingsályktunartillögunnar. Henni er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif en nefndin telur æskilegra að vísa til auglýsingar í Stjórnartíðindum þar sem fyrri þýðing samningsins var birt, sérstaklega í ljósi þess að samningurinn fylgdi ekki þingsályktunartillögunni sjálfri, nr. 61/145, heldur annarri tillögu, samanber þskj. 1693 á 145. löggjafarþingi. Ég ætla ekki að lesa hér upp frá orði til orðs breytinguna á orðalaginu en ítreka að breytingunni er ekki ætlað að hafa neina efnislega þýðingu, er einungis til þess að það sé alveg kristaltært hvernig þetta er orðað, þ.e. breytingin á þingsályktunartillögunni.

Hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir nefndarálit þetta skrifa sú sem hér stendur og hv. þingmenn Páll Magnússon formaður, Guðmundur Andri Thorsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Olga Margrét Cilia, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þorsteinn Sæmundsson.

Herra forseti. Ég fagna því mjög að við séum komin á þann stað að ég sé að mæla fyrir nefndaráliti um nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fyrir liggur að er einróma sátt og samhugur um. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir réttindi fatlaðs fólks og það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir íslenskt samfélag að þessi samningur sé vel þýddur og þar með hægt að nota hann til að bæta réttindi fatlaðs fólks. Eins og heyra mátti þá er þetta nefndarálit frá allri allsherjar- og menntamálanefnd þannig að ég vona svo sannarlega að við verðum búin að samþykkja þetta mál innan mjög skamms tíma.