151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[14:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir eldheita ræðu, hugsjónaríka ræðu. Ég vil draga það fram, eins og fólk veit sem verið hefur hér í þingsal, að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur verið óþreytandi við að minna okkur nákvæmlega á þetta. Við erum búin að fullgilda samninginn en það er ekki búið að löggilda hann. Það er búið að samþykkja þetta hér í þinginu ótvírætt þvert yfir flokka nema það voru tveir þingmenn Sjálfstæðisflokks sem treystu sér ekki til að styðja málið, sem er náttúrlega umhugsunarefni. Þó að það komi ekki á óvart þá er það engu að síður umhugsunarefni. Það kann vel að vera að löggildingunni fylgi aðhald og eftirlit, bæði með löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu, en þannig á það líka að vera þegar kemur að nákvæmlega þessum hópi fólks sem við þurfum sérstaklega að taka utan um og erum búin að segja mjög skýrt hér í þinginu að við viljum taka utan um. Enn og aftur er það framkvæmdarvaldið sem sýnir ekki frumkvæði til þess að fylgja þessu eftir.

Það er áhugavert að vita að það eru þrír samningar sem við höfum lögfest, þar á meðal mannréttindasáttmáli Evrópu. Við vitum alveg að mannréttindasáttmáli Evrópu er aðhaldstæki fyrir okkur. Hann hefur rassskellt stjórnvöld, m.a. þessa ríkisstjórn, hressilega og það er bara í lagi svo lengi sem við erum að ýta undir réttarbætur, gegnsæi og upplýsingar í þeirri viðleitni okkar að gera samfélagið okkar betra í þágu allra, hvort sem það er í þágu mannréttinda eða annarra þátta. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Af hverju telur hann að ríkisstjórnin dragi lappirnar í þessu þegar vilji þingsins er algerlega ótvíræður í þessu mikilvæga máli?