151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég var ein þeirra þingmanna sem greiddu atkvæði með því að samningur Sameinuðu þjóðanna, um réttindi fatlaðs fólks, yrði lögfestur og ég hef svo sannarlega ekki skipt um skoðun í því máli og tel það enn mjög brýnt. Ég get ekki svarað því hvar það mál er statt og veit hreinlega ekki hvaða hæstv. ráðherra er í raun með það á sínu borði. Hins vegar tel ég málið sem við ræðum hér, nýja þýðingu á samningnum, mikið lykilatriði í því að hægt sé að stíga næsta skref, þ.e. að lögfesta samninginn. Það er eins gott að við séum með orðalag sem er hafið yfir allan vafa þegar samningur er lögfestur. Því miður er þetta, held ég, fjórða eða fimmta útgáfan af þýðingu sem við erum að fjalla um núna. Því miður var í upphafi ekki haft nægilegt samráð við hreyfingu fatlaðs fólks og fræðimenn þegar þýðingar voru gerðar. Um leið og ég vil taka undir mikilvægi þess að samningurinn verði lögfestur vil ég samt minna á að það er þó búið að fullgilda hann. Það má ekki setja nein lög sem eru í andstöðu við samninginn og það skiptir máli. Það skiptir gríðarlega miklu máli fram að því að samningurinn verður lögfestur. (Forseti hringir.) Ég tel að nýja þýðingin sé grundvallarskref í því að við getum haldið áfram.