151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[15:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða tillögu til þingsályktunar um nýja þýðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Því miður gefur þessi þýðing viðkomandi fötluðu fólki ekki nein aukin réttindi. Ef það hefði verið tilgangurinn þá værum við líka að fá lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hverju hefði það skilað okkur? Við skulum bara aðeins spá í það hvernig farið er að í málefnum örorkulífeyrisþega við ríkisvaldið. Ef viðkomandi er ekki sáttur við það sem Tryggingastofnun ríkisins er að gera í skerðingum eða á annan hátt getur hann skotið máli sínu til úrskurðarnefndar almannatrygginga. En hvað þýðir það á mannamáli? Jú, þeir eru búnir að flækja svo hrikalega úrskurðarnefndina að það eru komnir meira að segja lögfræðingar á vegum ríkisins, launaðir, sem taka við málum hjá úrskurðarnefndinni og þessir lögfræðingar taka yfirleitt málstað Tryggingastofnunar eða ríkisins gegn viðkomandi öryrkja. Og hvað getur öryrkinn gert í því? Hann er að berjast við það, þegar úrskurðarnefndin sendir á Tryggingastofnun sem tekur á móti með herskara lögfræðinga, sem eru á launum hjá ríkinu, að einstaklingurinn verður sjálfur að standa undir sínu máli fyrir úrskurðarnefndinni. Jafn leikur? Nei, langt í frá. Það er mjög ójafn leikur.

Þess vegna skiptir svo miklu máli að við lögfestum samning Sameinuðu þjóðanna og það strax. Það sýnir sig hér, með því að leggja eingöngu fram þýðinguna og fullyrða líka að til þess að hægt sé að lögfesta samninginn þurfi þýðingin að vera rétt — sem er algerlega rangt. Það sem við þurfum að gera er bara að sjá til þess að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna og það strax og það átti að vera búið að því í desember síðastliðnum en var ekki gert. Það er verið draga málið á langinn með því að setja þýðinguna inn í þetta.

Annað í þessu sem gerir þetta sorglegt, þessa þýðingu sem hefur engin áhrif á lög eða réttindi örorkulífeyrisþega, er, eins og ég kom að í andsvörum við hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson, að umboðsmaður Alþingis er ítrekað að slá á puttana á ríkisvaldinu, á Tryggingastofnun og félags- og barnamálaráðuneytinu þar sem kemur fram að það eru ítrekað skýlaus lögbrot gagnvart fólki sem er eingöngu að biðja um sín réttindi hjá Tryggingastofnun. Við hljótum að setja allar viðvörunarbjöllur í gang þegar Tryggingastofnun gengur svo langt að bjóða ólöglega upp íbúð ofan af einstaklingi, öryrkja. Við hljótum þá að hugsa með okkur: Hvað er í gangi? Þegar umboðsmaður Alþingis bendir þeim á það og segir þeim að taka málið til skoðunar og gæta að réttindum viðkomandi þá draga þeir áfram lappirnar og svara ekki, gera ekkert. Ef það er hægt að tala um ofbeldi þá er hægt að tala um gífurlegt fjárhagslegt ofbeldi þarna, ofbeldi gagnvart einstaklingi sem á eiginlega ekki möguleika á því að verja sig og átti ekki möguleika á að verja sig.

Það sem er kannski það furðulega í málinu er þessi einbeitti brotavilji gagnvart þessum einstaklingi á öllum stigum, aftur og aftur, þangað til að viðkomandi missir íbúðina sína. Og þá þarf hann enn að fara að berjast, þó að umboðsmaður sé búinn að benda á þetta, og þarf líklega að fara í dómsmál til að ná rétti sínum fram gagnvart þessu bútasaumaða bákni sem er búið að búa til, sem er eitt það skelfilegasta í sögu okkar og okkur til háborinnar skammar, að við skulum vera með kerfi sem kerfisbundið brýtur réttindi á fólki. Það á í sjálfu sér að vera að verja réttindi þess og reyna að sjá til þess að fólk fái sín réttindi algjörlega. Nei, það snýst því miður oftast við og gerir það að verkum að tortryggnin eykst. Og ég veit um mörg dæmi þess að fólk hefur gefist upp. Það á réttindi og hefur allt til þess að fá þau í gegn en gefst upp vegna þess að það hefur ekki efni á lögfræðingi og hefur ekki efni á því að berjast fyrir rétti sínum gagnvart úrskurðarnefnd almannatrygginga eða hreinlega gagnvart stofnuninni í heild. Sumir gefast meira að segja á því að fara inn í stofnunina og reyna að ná rétti sínum. Það segir okkur að þá er eitthvað að. Og það segir okkur líka að það vantar nauðsynlega að öryrkjar fái sinn umboðsmann sem getur stutt við umboðsmann Alþingis, sem er störfum hlaðinn og hefur haft í nógu að snúast en hefur þó reynt að spyrna við og reyna að hjálpa einstaklingum sem hafa lent undir í þessu kerfi.

Við erum með skrýtið kerfi sem sýnir sig í því að ráðamenn koma aftur og aftur og segja að það hafi orðið gífurleg fjölgun öryrkja og það þurfi að bregðast við því og helst að henda þeim út á guð og gaddinn eða í eitthvert starfsgetumat sem er alveg stórfurðulegt ef við lítum á söguna og fáum staðreyndirnar upp á borðið. Eins og ég benti á í óundirbúnum fyrirspurnum við hæstv. heilbrigðisráðherra kemur fram hjá Öryrkjabandalaginu hver muninn er á stöðunni hér og á Norðurlöndunum þar sem við sjáum þær gífurlegu kröfur sem eru gerðar til fólks á Íslandi. Það kemur í ljós að stór hluti þeirra sem eru að koma inn á örorku eru konur á aldrinum 50–66 ára. Er einhver hissa á því þegar bent er á að skýringin gæti legið í verkaskiptingu á vinnumarkaði, auknum byrðum kvenna í heimilishaldi, af umönnun barna og eldri eða veikra fjölskyldumeðlima og í kynbundu ofbeldi svo dæmi sé nefnt? Bak við þessa prósentur erum við að ræða um ömmur, frænkur, systur sem eru komnar rétt á miðjan aldur og geta hreinlega ekki meir. Fólk lendir á örorku og hvað gerir ríkisstjórnin? Ekkert, því miður. Hvar haldið þið að það endi þegar einstaklingi sem er að reyna að komast inn á hjúkrunarheimili er hafnað 17 sinnum? Hver haldið þið að þurfi í öll þessi 17 skipti að taka ábyrgð á honum? Sennilega mæður, ömmur, frænkur eða systur eða einhver. Ábyrgðinni vísað frá ríkinu yfir á þær og svo verður ríkið alveg steinhissa á því að öryrkjum stórfjölgar.

Þetta segir okkur líka að því miður er staðan þannig að ég óttast helst að það eigi ekki að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna. Það er einhver tregða í ríkisstjórninni. Ég segi bara guð hjálpi okkur ef þessi ríkisstjórn verður áfram önnur fjögur ár. Þá vitum við nákvæmlega hverjir það eru sem fá ekki hjálpina. Samningur Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk verður ekki lögfestur. Breiðu bökin verða fundin eina ferðina enn í hópi þeirra sem síst skyldi, sem sagt öryrkja, fatlaðra og eldri borgara og þeirra sem minnst hafa í þessu samfélagi. Því miður er hætt við að það komi fleiri afsakanir fyrir því að lögfesta ekki samninginn eins og það sé ekki rétt þýðing. Rétt þýðing hefur ekkert með lögfestinguna að gera, ekki neitt. Það er bara vilji, en þessi ríkisstjórn hefur ekki nokkurn vilja til þess að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna, ekki einn einasta, því miður. Þess vegna óttast ég það að Öryrkjabandalagið þurfi enn einu sinni að auglýsa. Meðan við höfum núverandi ríkisstjórn — en stefnum vonandi ekki í að hún verði áfram — þá segi ég bara guð hjálpi okkur, þá verður ekki lögfestur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á næstu fjórum árum.