151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

698. mál
[15:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Óla Björn Kárason að því hvort komið hafi til umræðu í nefndinni, í sambandi við úttekt á séreignarsparnaði, hvort þeir öryrkjar sem hefðu kannski verið á vinnumarkaði og ættu inni einhvern ákveðinn hluta í séreignarsparnaði og myndu svo jafnvel vilja nýta hann til kaupa á íbúð eða að borga upp lán á íbúð, hvort komið hefði til umræðu að þeir einstaklingar gætu nýtt sér hann skattlaust eins og sumir á vinnumarkaði geta. Þessi fyrirspurn kom til mín frá einstaklingi sem gat ekki nýtt sér séreignarsparnaðinn mánaðarlega, skattlaust.

Mig langar að spyrja hvort þetta hafi komið til umræðu í nefndinni og hvort það sé ekki eitthvað sem þyrfti að taka til skoðunar til að samræma þannig að ekki sé verið að mismuna eftir því í hvaða aðstöðu viðkomandi er þegar hann er með séreignarsparnað og að hann geti nýtt sér hann. Þetta er nú ekki stór hópur og ekki á mikið í séreignarsparnaði. En það gæti skipt miklu máli að þeir gætu þá alla vega fengið þetta tækifæri til að nýta séreignarsparnað skattlaust inn á húsnæðislánareikning eins og allir aðrir.