Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

698. mál
[15:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mér er vel kunnugt um þær ágætu upplýsingar sem liggja fyrir um þessar aðgerðir og gott að hv. þingmaður kom inn á það og benti á það vegna þess að það er af hinu góða að geta haft gott yfirlit yfir þær. Ég tek undir það með hv. þingmanni að sú vinna er til fyrirmyndar. Ég set alls ekki út á hana.

Það er hins vegar þetta með árangurinn sem er kannski erfiðara að leggja mat á akkúrat hér og nú. En þetta er eitthvað sem við þurfum að gera miklu meira af í ríkisfjármálunum, við þurfum að árangursmæla það sem við erum að gera. Ég hef rekið mig á það í störfum mínum innan fjárlaganefndar að bæta þarf þann þátt í fjármálastjórn ríkisins, þ.e. að menn sjái það svart á hvítu hver árangurinn er af tilteknum aðgerðum sem fela í sér útgjöld af hálfu ríkissjóðs hverju sinni. Þetta hefur verið rætt innan nefndarinnar og nefndarmenn eru sammála um að í þessum efnum þurfi að bæta í vegna þess að það er jú sameiginlegt verkefni okkar allra að stuðla að ráðdeildarsemi í fjármálum ríkissjóðs. Jafnframt erum við að að halda uppi öflugu velferðarkerfi sem kostar peninga. Það þarf líka að fylgjast vel með því að það sem lagt er út í hverju sinni skili þeim tiltekna árangri sem menn eru að vonast til. Það er líka hlutur af lögunum um opinber fjármál. Það eru náttúrlega dæmi þess að verið sé að setja fjármuni í hluti sem skila ekki tilsettum árangri. Það þarf því að fylgjast vel með þessum þáttum. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir ágætisandsvar.