151. löggjafarþing — 92. fundur,  10. maí 2021.

hreinsun Heiðarfjalls.

779. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu frá hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og mig langar að byrja mál mitt á að þakka öðrum hv. þingmönnum sem í þeirri nefnd sitja fyrir gott samstarf við það að koma þessari tillögu á koppinn. Tillagan til þingsályktunar um hreinsun Heiðarfjalls hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins að gangast fyrir rannsókn á umfangi mengunar í jarðvegi og grunnvatni í Heiðarfjalli, frá þeim tíma er þar var rekin eftirlitsstöð á vegum Bandaríkjahers í tengslum við varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins. Samhliða verði gerð tímasett áætlun um kostnað og hreinsun á úrgangs- og spilliefnum þannig að tryggt verði að staða umhverfis- og mengunarmála samræmist kröfum dagsins í dag. Ráðherra skuli leggja áætlunina fyrir Alþingi eigi síðar en 15. mars 2022. Þessi vinna fari fram í nánu samstarfi við landeigendur.“

Forseti. Eins og fram kemur í þessum stutta texta þá fjallar hann um atburði sem hafa staðið býsna lengi yfir, þ.e. frá því að rekin var eftirlitsstöð á vegum Bandaríkjahers á Heiðarfjalli. Það er ekki ofsögum sagt að þetta mál hafi verið að velkjast í kerfinu um nokkra hríð, ætli það sé ekki orðin um hálf öld frá því að fyrst fór að bera á ólíkum skoðunum á því hvernig staðan væri á Heiðarfjalli, hvað væri rétt að gera á Heiðarfjalli, hver þörfin væri á Heiðarfjalli og hver skylda hvers væri á Heiðarfjalli. Undir liggur allt frá varnarmálasamningnum sjálfum um viðskilnað hersins yfir í einstaka samninga sem gerðir hafa verið. Þetta er gríðarlega flókið mál og hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd má vera býsna stolt af sjálfri sér með að hafa núna stigið það skref að loka dyrunum á og ljúka því, því að eftir stendur, þrátt fyrir allar deilur um hvað er hvers og hvurs í þessu, að það þarf að grípa til aðgerða á svæðinu. Það þarf að meta umfang mengunar og hreinsa. Ég er býsna stoltur af því að geta staðið hér fyrir hönd hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hefur náð saman um þessi mál.

Eftirlitsstöðin á vegum Bandaríkjahers var rekin þarna á tímabilinu 1954–1970 og ætla má að af völdum þeirra spilliefna sem er að finna þar í jörðu sé hætta á mengun. Eigendur jarðarinnar Eiðis í Heiðarfjalli, sem keyptu hana fyrir nærri hálfri öld, hafa um áratuga skeið reynt að leita réttar síns og í því skyni átt í viðræðum við fulltrúa framkvæmdarvaldsins á ýmsum tímum, líka talað við Bandaríkjastjórn og Atlantshafsbandalagið, leitað til dómstóla og víðar en án árangurs. Eftir stendur þetta mengaða landsvæði sem verður að hreinsa.

Forseti. Þegar horft er til fortíðar og verk mannanna dæmd verður að hafa í huga að viðhorf breytast og það er ekki endilega alltaf vel til fallið að setja sín viðmið á fortíðina en sem betur fer hafa viðhorf til umhverfismála gjörbreyst frá því að samið var um viðskilnað á umræddu svæði. Bandaríkjaher og Atlantshafsbandalagið hafa ekki farið varhluta af þessari viðhorfsbreytingu og ekki síst þegar kemur að viðskilnaði á hernaðarsvæðum. Og það er lykilatriði hér. Þannig hefur Atlantshafsbandalagið verið reiðubúið að veita styrki til rannsókna á mengun af völdum hernaðarumsvifa og Bandaríkjastjórn hefur fyrir sitt leyti tekist á hendur að hreinsa svæði eftir herstöðvar sínar eða fjármagna slíka hreinsun óháð samningsbundnum kvöðum.

Forseti. Óháð samningsbundnum kvöðum. Viðhorfin hafa nefnilega breyst þannig að fyrri samningar skipta ekki alltaf öllu máli þar sem allir aðilar sem að þeim komu hafa áttað sig á því að nú þurfi að grípa til stórtækari aðgerða en þá var samið um. Um þetta eru þekkt dæmi í heiminum. Þess vegna telja flutningsmenn nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld hefji viðræður við Bandaríkjastjórn og Atlantshafsbandalagið um aðkomu og þátttöku í væntanlegu hreinsunarstarfi á grundvelli rannsókna og áætlunar um hreinsun á úrgangs- og spilliefnum. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld hefji þær viðræður.

Forseti. Það er ánægjuefni, eins og ég hef sagt hér áður, að Alþingi skuli núna vera að gera gangskör í því að ljúka þessu máli. Landeigendur og aðrir sem að málinu hafa komið hafa lengi velkst um í kerfinu. Að mínu viti er aðalmálið ekki einhver sök í því heldur það að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru svo að svæðið megi hreinsa.

Ég vonast til þess, þar sem hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd stendur einhuga að þessu máli, að það fái skjótan og öruggan framgang í gegnum þingið og við getum gengið út í sumarið, hvenær sem þingi verður frestað, stolt yfir því að hafa sett endapunkt fyrir aftan deiluna um hreinsun Heiðarfjalls.