151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

tilkynning.

[13:00]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Í framhaldi af umræðu í þingsal í síðustu viku um skýrslubeiðni frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur og fleirum um breytingar á skipulagi og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í leghálsi vill forseti geta þess að heilbrigðisráðherra, í bréfi til forseta, hefur óskað eftir fjögurra vikna viðbótarfresti til að skila skýrslunni. Þá hefur jafnframt verið tilkynnt um það að Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir, muni koma að vinnu við gerð skýrslunnar sem óháður aðili að beiðni heilbrigðisráðherra og hafa þingflokkar verið upplýstir um það mál.

Í framhaldi af umræðum sem hér urðu í gær um svör við fyrirspurnum er rétt að geta þess að þingfundaskrifstofa hefur reglubundið samband við ráðuneytið þegar fyrirspurnir eru komnar fram yfir tíma og innir eftir væntanlegum svörum og/eða leggur áherslu á að beðið sé um lengri frest ef ekki er unnt að verða við honum.

Forseti hyggst einnig hafa sérstaklega samband við ráðherra eða ráðuneyti varðandi þær fyrirspurnir sem lengst er um liðið frá því að fram komu. Það mun enn vanta svör við um 14 fyrirspurnum sem bárust á tímabilinu október til febrúarloka. Þegar svo langt er um liðið telur forseti ástæðu til að grípa til sérstakra ráðstafana til að ýta á eftir svörum. En annars má upplýsa um það að staðan á þessum málum almennt er síst lakari en hún hefur oft verið um þetta leyti árs.