Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

störf þingsins.

[13:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Verðtryggingin hefur áhrif á hagkerfið okkar umfram fjárhagslega hagsmuni neytenda sem taka verðtryggð lán til húsnæðiskaupa. Verðtryggð lán hafa kerfislæg áhrif sem eru neikvæð, til að mynda draga þau úr biti verkfæra Seðlabankans, t.d. vaxtahækkunum. Þau belgja út eignir bankanna án þess að þeir þurfi að hækka vexti sérstaklega eða gera eitthvað annað sem gæti haft áhrif á eftirspurn. Svo eru auðvitað til kenningar um það, trúverðugar að mínu mati, að verðtryggingin sjálf búi til vítahring verðbólgu. Nú búum við svo vel að u.þ.b. helmingur lána er verðtryggður. Það hefur í gegnum tíðina ávallt verið meira og auðvitað var lengi vel ekki hægt að fá óverðtryggð lán. Nú eru óverðtryggð lán í mikilli stórsókn og verða það fyrirsjáanlega vegna þess að vextir eru blessunarlega lágir.

Virðulegi forseti. Að afnema verðtryggingu með lögum, já, banna hana, þarf að gera með tilliti til áhrifa slíkra breytinga á hagkerfið sjálft. Þess vegna er núna tækifærið, á meðan óverðtryggð lán eru í sókn og verðtryggð lán í vörn, til að stuðla að lagabreytingum sem eru til þess fallnar að afnema verðtryggingu. Hvort það verður gert á einu bretti eða yfir aðeins lengra tímabil er mögulega önnur spurning en þó, með hliðsjón af aðstæðum núna, hallast ég að hinu fyrrnefnda, að við eigum hreinlega að gera ný verðtryggð lán ómöguleg samkvæmt lögum. Ég hef hvorki tíma né kannski þolinmæði hlustenda til að fara yfir allt sem er slæmt við verðtryggingu eða nákvæmar ástæður þess að við ættum að afnema hana, en punktur minn er sá að núna er góður tími til að fara út í slíkar breytingar ef Alþingi hefur hug á að fara í þær á annað borð.