151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

störf þingsins.

[13:10]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég er mikill aðdáandi Ruth Bader Ginsburg, hæstaréttardómara í Bandaríkjunum. Hún var brilljant lögfræðingur, klók og kona snjallra tilsvara. Hún var skipuð dómari í Hæstarétti árið 1993 og varð seinna leiðtogi frjálslynda armsins í Hæstarétti. Sem lögmaður vann hún þannig að hún valdi lítil mál til að láta reyna á mikilvæg atriði sem höfðu víðtækari áhrif en málin sjálf gáfu til kynna. Þannig náði hún fram breytingum. Styrkleiki hennar fólst í því að hún skynjaði lagalegar en um leið pólitískar afleiðingar dóma réttarins.

Fyrir ekki svo löngu var í fréttum mál kennara sem vildi fá uppsögn sína dæmda ógilda. Ástæða starfslokanna var sú að kennarinn var orðinn 70 ára gamall. Kennarinn taldi ómálefnalegt að aldurinn einn réði því að hann fengi ekki lengur að kenna. Þar blasir kannski við spurningin, hin pólitíska spurning, hin samfélagslega spurning: Hvaða áhrif hefur það á faglegt skólastarf að eldri og reyndari kennarar eigi að hætta störfum bara vegna þess að þeir vakni upp 70 ára einn daginn? Hvernig rímar það við eðli starfsins, þ.e. kennslu og að miðla kannski visku í leiðinni? Kennarinn tapaði málinu, var dæmdur úr leik vegna aldurs.

Mér varð hugsað til uppáhaldsdómarans þegar ég las þennan dóm, hvernig hún hefði teiknað upp röksemdirnar kæmi svona dómsmál inn í hennar sal. Þar gilti þessi regla að vísu ekki og 70 ára reglan hefði leitt til þess að hún hefði ekki dæmt nein mál síðustu 17 árin af ferli sínum. Það hefði verið alvarlegur missir fyrir bandarískt samfélag. Hún sat sem dómari til dauðadags, lést 87 ára að aldri, og komu margir af hennar þýðingarmestu dómum síðustu árin. Hvaða lærdóm og reynslu drögum af því?

Nú er Reykjavíkurborg farin að vinna að stefnu um sveigjanleg starfslok, að veita fólki meira valfrelsi um starfslok. (Forseti hringir.) Það er mikilvæg breyting og mikilvæg vinna sem ég fagna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)