151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

störf þingsins.

[13:12]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Eftir langa og stranga jarðskjálftahrinu á Reykjanesi hófst eldgos í Geldingadölum í Fagradalsfjalli um klukkan korter fyrir níu föstudagskvöldið 19. mars 2021. Fleiri gossprungur opnuðust en engin hætta steðjar að byggð vegna gossins eins og staðan er. Nú hefur gosið aukið kraft sinn og mikil aukning er í hraunflæði þess. Það liggur fyrir að í náttúruhamförum þar sem okkur, almennum borgurum, finnst eins og ástandið sé viðráðanlegt og lítil hætta steðji næstu byggð, gæti hættan samt verið skammt undan. Það er mikilvægt að viðbragðsaðilar og þeir sem þurfa að bregðast hratt við ef ástandið breytist hafi þekkingu og reynslu til að bregðast við.

Í síðustu viku var leitað til ríkisstjórnar og umhverfisráðuneytis um að afla reynslu og þekkingar á uppbyggingu á varnargarði. Það gæti þurft að byggja varnargarð síðar til að verja mikilvæga innviði eða íbúabyggð á Reykjanesskaga verði breytingar á gosinu og opnist sprungur nær byggð. Nú þegar liggur fyrir útfærsla á hugsanlegum prófunum á mögulegum hraunrennslisvörnum í Merardölum út frá núverandi gosi í Geldingadölum. Tilgangur þessa prófana er að afla reynslu og þekkingar á uppbyggingu varnargarða sem gæti þurft að byggja síðar til að verja mikilvæga innviði, eins og áður segir.

Virðulegur forseti. Bæjarráð Grindavíkur leggur áherslu á að þær aðstæður sem nú eru til staðar í Merardölum verði tafarlaust nýttar til að framkvæma prófanir á hraunrennslisvörnum og að tilskilin leyfi fáist til framkvæmda. Vonandi komast þau mál í höfn. En eftir því sem ég kemst næst hefur ekki fengist leyfi til að gera slíkar prófanir. Ég verð að segja eins og er að það nær auðvitað ekki nokkurri átt ef umhverfisráðuneytið eða ríkisstjórn Íslands stendur í vegi fyrir að slík leyfi séu gefin. Má í því sambandi benda á að prófanir á hraunrennsliskælingu með sjó voru gerðar í Surtsey árið 1965, sem kom að góðum notum í Heimaeyjargosinu 1973.