Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

störf þingsins.

[13:16]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Við höfum rannsakað hagi ungs fólks með markvissum hætti síðan 1992. Síðastliðin 22 ár hafa Rannsóknir og greining staðið fyrir rannsókninni „Ungt fólk“. Árið 1998 höfðu 42% 15 ára barna orðið drukkin síðastliðna 30 daga og nú, 20 árum síðar, er sú tala komin niður fyrir 6%. Vímuefnaneysla var vaxandi vandamál í íslensku samfélagi en þeirri þróun var snúið við. Það tókst með skipulögðum hætti. Í niðurstöðum nýjustu rannsóknar ungmenna í 8., 9. og 10. bekk kemur í ljós að aðeins einn af hverjum þremur nemendum metur líkamlega heilsu sína góða. Aðeins helmingur nemenda telur sig oft eða alltaf fá nægan svefn og aðeins um einn af hverjum fjórum nemendum metur andlega heilsu sína góða. Viðfangsefni ungs fólks í dag eru önnur en fyrir 20 til 30 árum og það þarf að bregðast við með jafn markvissum hætti og fyrir 20 árum. En ungu fólki sem upplifir hræðslu fjölgar. Þeim nemendum fjölgar sem hafa lítinn áhuga á því sem þeir eru að gera. Þeim nemendum sem hafa litla matarlyst fjölgar. Þeim nemendum sem upplifa sig eina fjölgar og einnig þeim sem eru daprir og niðurdregnir. Þeim nemendum fjölgar talsvert sem meta bæði líkamlega og andlega heilsu sína sæmilega eða slæma. Hvernig fyrirmyndir erum við fullorðna fólkið? Hvaða gildi eru ríkjandi í samfélaginu? Eru það gleði, lífsvilji, einlægni og nægjusemi? Í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum tröllríður samkeppni, samanburður, yfirráð, öfund, fjárfesting og græðgi. Ættum við fullorðna fólkið að tileinka okkur barnslegri eiginleika til að bæta tilveruna? Við eigum að hlúa að börnunum okkar og verða betri fyrirmyndir barna og ungmenna. Veltum því fyrir okkur hver hin nýju viðfangsefni unga fólksins okkar í dag eru.