151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

störf þingsins.

[13:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Síðustu vikuna hefur fjöldi fólks, þá aðallega kvenna, sýnt mikið hugrekki og sett reynslu sína af kynbundnu ofbeldi á samfélagsmiðla. Ég vil byrja á því að þakka þeim fyrir hugrekkið. Það er ekki auðvelt að berskjalda sig opinberlega. Það er ekki auðvelt að vinda ofan af nauðgunarmenningu. Við erum í annarri bylgju #metoo. Þetta er sem sagt í annað sinn á nokkrum árum sem samfélagsmiðlar ljá konum rödd og körlum sem voru líka lengi raddlausir vegna þöggunar og druslurskömmunar, vegna viðhorfa sem hafa verið meinsemd í samfélagi okkar og ýta við okkur til að horfa framan í okkur sjálf sem samfélag, blákalt. Núna hefur skapast nokkur umræða um hvers vegna fólk stígur fram á samfélagsmiðlum, hvort réttlætanlegt sé að birta svo miklar upplýsingar að gerandi sé nánast persónugreindur án þess að málið rati nokkurn tímann á borð lögreglu. En á sama tíma fáum við upplýsingar um að Landsréttur mildi dóma í 40% kynferðisbrotamála sem fara fyrir dóminn, 40%. Til samanburðar eru 25% dóma í ofbeldis- og fíkniefnabrotum mildaðir. Skyldi engan undra að þolendur séu tregir til að leita réttar síns ef þetta eru kveðjurnar frá dómstólum landsins. Þó að þrjú ár séu síðan við hér í þessum sal breyttum almennum hegningarlögum á þá vegu að samþykki væri sett í forgrunn í kynferðisbrotamálum er sönnunarbyrðin í þeim málum enn þá allt of þung. Í ofanálag eru þolendur sem stíga fram sakaðir um að sverta mannorð gerenda sinna. Það er umræða sem við þurfum að uppræta strax. Það eru gerendur sem sverta sitt eigið mannorð þegar þeir beita ofbeldinu. Við þurfum öll að líta í eigin barm, við þurfum að standa með öllum þolendum, ekki síst þeim sem standa okkur næst, og horfast í augu við gerendur sem við kunnum að þekkja og gera þeim ljóst að við tökum afstöðu gegn ofbeldi.

Herra forseti. Ég vil aftur þakka öllum þeim sem sýnt hafa hugrekki með því að segja sína sögu. Ég sé ykkur. Ég trúi því að við séum öll að hlusta og nú þurfum við að takast á við þetta saman. Ég stend með ykkur.