151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

störf þingsins.

[13:20]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í morgun stóð Vegagerðin fyrir málþingi um þjóðvegi á hálendinu. Ég fagna því enda er eitt af verkefnum Vegagerðarinnar samkvæmt samgönguáætlun að móta stefnu um hönnun vega á hálendi Íslands. Málþingið markar tímamót í þeirri vinnu þar sem kallað var eftir skoðunum ólíkra hópa á málefninu, hvernig þeir sæju fyrir sér vegi á hálendinu, hvar þeir ættu að vera, hvernig og hverjum þeir skyldu þjóna. Á hálendinu er stórt vegakerfi í afar misjöfnu ástandi. Hér er því um að ræða mjög mikilvægt málefni óháð því hvernig stjórnsýslu á hálendinu er háttað. Vegagerðin ber ábyrgð á stofnvegum hálendisins og neti landsvega sem tilheyra þjóðvegakerfinu. Þar fyrir utan liggja vegir og vegslóðar hingað og þangað, þ.e. vegir sem hafa einkum verið lagðir af sveitarfélögum og nytjaréttarhöfum, svo sem bændum, veiðimönnum og orkufyrirtækjum. Vegirnir hafa í mörgum tilfellum verið lagðir með aðkomu ríkisvaldsins í gegnum stuðning styrkvegasjóðs en mörg dæmi eru um vegi þar sem almannafé hefur ekki komið við sögu. Sveitarfélög sem fara með stjórnsýslu á hálendinu bera ábyrgð á skráningu þessara vega og að ákvarða samhliða hverjir þeirra eru opnir almennri umferð.

Málþingið var gott en ég saknaði umræðu um vegi norðan Vatnajökuls. Ég álít að eitt af brýnu verkefnunum varðandi umferð á hálendinu sé að taka stefnumarkandi ákvörðun um tengingu hálendisins norðan Vatnajökuls við Sprengisandsleið með stofnvegi. Þar þarf bæði að velja heppilegustu leiðina og ákvarða hvernig veg eigi að leggja. Ef vilji er til að tryggja aðgengi að náttúruperlum eins og Kverkfjöllum, Herðubreið og Öskju án þess að spilla náttúru verður að fara í það verkefni.