151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

störf þingsins.

[13:22]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ísland á sérstakt samband við Palestínu en Ísland var fyrsta vestræna ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði og fullveldi Palestínu með samhljóða samþykkt Alþingis árið 2011. Við höfum einnig söguleg tengsl við Ísraelsríki frá stofnun þess árið 1948 en vegna þeirra tengsla skoraði ég á ríkisstjórnina fyrir tæpu ári, ásamt hv. þingmönnum Rósu Björk Brynjólfsdóttur, Loga Einarssyni og Silju Dögg Gunnarsdóttur, að beita sér fyrir friðsamlegum lausnum á deilum þar á milli en ekkert hefur heyrst í þá veruna. Á meðan ríkisstjórn Íslands gerði ekkert hélt ástandið í Palestínu áfram að versna en helsta birtingarmynd þess þessa dagana eru deilur umhverfis Sheikh Jarrah í Jerúsalem þar sem Ísraelar hafa ákveðið að víkja burt palestínskum fjölskyldum og leyfa landnemum að setjast þar að, þvert á alþjóðalög og mannréttindi.

Það þarf varla að nefna að nauðungarflutningar af þessu tagi hafa sögulega verið meðal verstu glæpa gegn mannkyni, hvort sem litið er til frumbyggja í Bandaríkjunum, Tartara á Krímskaga og í Úkraínu og í Kákasus eða allra hinna fjölmörgu tilfella þar sem slíkt hefur verið gert. Það þarf heldur ekki að nefna að slíkir nauðungarflutningar eru oft undanfari, eða eiga sér stað samhliða, þjóðarmorða líkt og þekkt er í tilfellum Kúrda, Armena og allt of margra annarra þjóða, því miður. Af þessum ástæðum vil ég nota tækifærið til að undirstrika fyrri áskorun á ríkisstjórnina um að taka til hendinni í málefnum Palestínu en jafnframt að skora á þingið að klára sem fyrst að samþykkja tvær þingsályktunartillögur sem liggja fyrir þinginu, annars vegar um fordæmingu á þjóðarmorðum á Kúrdum og hins vegar á sambærilegum þjóðarmorðum á Armenum, enda er mikilvægt að það sé alveg kristaltært að glæpir gegn mannkyni líðist ekki og að heimsbyggðin fylgist vel með.