Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

störf þingsins.

[13:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Afmælisgjöf ríkisstjórnarinnar í tilefni af 60 ára afmæli Öryrkjabandalags Íslands er ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Í umræðunni um þýðinguna hér á Alþingi í gær var talað um að ekki væri hægt að lögfesta samninginn af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrr en rétt þýðing væri komin á samninginn sem er rangt og ekkert annað en enn einn útúrsnúningurinn. Besta afmælisgjöf til ÖBÍ hefði verið að lögfesta samninginn eins og átti að vera búið að gera í desember síðastliðnum ef farið hefði verið eftir samþykktum hér á Alþingi. Ef við hér á Alþingi værum nú þegar búin að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks eins og okkur ber þá væri staða öryrkja á Íslandi mun betri í hinni eilífu baráttu við kerfið sem kerfisbundið brýtur lög og réttindi á þeim. Skerðingar hafa aukist og það þrátt fyrir að nú séu 65 aura á móti krónu skerðing í gangi, sem er bara smáplástur á krónu á móti krónu skerðinguna sem var. Með leyfi forseta, orðrétt úr ræðu Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, formanns Öryrkjabandalagsins, í tilefni afmælisins:

„Kominn er tími til að þeir múrar sem reistir hafa verið af stjórnvöldum milli fatlaðs fólks og þátttöku þess í samfélaginu verði brotnir niður, þar eru skerðingar efstar á blaði. Íslendingar eiga heimsmet í að beita fatlað fólk óhóflegum skerðingum og skattlagningum, þar er ekki gætt meðalhófs. Engin önnur þjóð beitir þennan samfélagshóp jafn grimmilegum aðgerðum. Afraksturinn er sá að hluti fatlaðs fólks býr við ævarandi skort, fátækt sem eltir það inn í ellina, kúgað, niðurbrotið og vonlaust.“

Þar segir einnig:

„Aldraðir fá sömu útreið, þau sem búa á hjúkrunarheimilum eru of dýr í rekstri, of dýr fyrir samfélagið sem þau sjálf skópu.“

Virðulegur forseti: Girðum upp um okkur réttlætið hér á Alþingi, samþykkjum strax samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Flokkur fólksins berst af öllu afli gegn mismunun, óréttlæti og mun áfram berjast með öllum ráðum við að mylja niður múra fátæktar. Að þýða samning Sameinuðu þjóðanna er ekki nóg. Tökum samning Sameinuðu þjóðanna úr frosti og lögfestum hann.