151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

auknar rannsóknir á þremur nytjastofnum í sjó við landið.

[13:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við byrjum á þessari sérstöku umræðu og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gefa sér tíma í hana. Við lítum á sjálfbærni sem lykilorð í sjávarútvegi. Hún leiðir aftur að þolmörkum stofna, sem setur okkur aflamörk sem verða þá ákveðin á grunni vandaðra rannsókna. Rannsóknir á nytjastofnum snúast m.a. um að afla staðgóðrar þekkingar á útbreiðslu tegunda, áætla stofnstærð, rannsaka nýliðun, vaxtarhraða, aldursdreifingu og loks veiðihæfni veiðarfæranna ásamt umhverfisáhrifum þeirra, og ég legg mikla áherslu á það. Hafrannsóknastofnun heldur utan um slíkar rannsóknir hér á landi. Hún er með yfir 4 milljarða ársveltu og stundar samvinnu við erlendar rannsóknarstofnanir og tekur þátt í evrópskum rannsóknarverkefnum, svo ég nefni eitthvað.

Sem náttúrufræðingur hef ég haft áhyggjur af nýtingu stofna á borð við hrognkelsi, sæbjúgu og humar, og hef raunar ekki skilið það nýtingarmynstur sem sést hefur síðastliðinn áratug eða svo. Allt þetta eru afar mikilvægir stofnar fyrir byggð í landinu og afkomu margra strandveiðibæja okkar. Hrognkelsaveiðar ná stærðargráðunni 7.000 tonnum á ári. Það eru um 20.000 tunnur af hrognum og útflutningsverðmæti hafa farið yfir 3 milljarða þegar vel árar. Spurningar vakna þá um veiðiþol þessa stofns. Nothæft mat á þessum stofni er byggt á tiltölulega fáum tugum fiska sem veiðast í togararöllum, og svo á veiði á grunnsvæði að einhverju leyti líka. Ég spyr: Hvernig er hægt að bæta í þá mynd sem við höfum af nytjaþoli grásleppu með þessi gögn í höndum? Auk þess að spyrja svona spurningar er ástæða til að minna á að það verður að nýta veidd hrognkelsi að fullu. Þar þarf e.t.v. nýsköpun til svo betur takist en hingað til. Ég auglýsi því í raun og veru eftir auknum rannsóknum á stofnstærðinni og betri nýtingu.

Sæbjúgu er nokkuð nýr nytjastofn. Tegundin heitir brimbútur og er plægð upp með þeim hætti að farið er langt fram úr veiðiráðgjöfinni síðastliðinn áratug. Veitt hefur verið frá 1.000 tonnum árið 2009 upp í 5.000–6.000 tonn á allra síðustu árum, en veiðiráðgjöfin hefur sveiflast í kringum 2.000 tonn, eða u.þ.b. þriðjung aflans sem veiddur er. Tegundin lifir m.a. á grýttum botni eða klettum sem plógar fara ekki mjúkri snertingu um. Þá spyr maður: Hvað er til ráða? Verðum við ekki að styrkja veiðiráðgjöfina og vita þá meira um bæði umhverfisáhrif og áhrif þeirra veiða á stofninn, sem lítið er vitað um hve stór er við landið, og í raun og veru vaxtarhraða hans og útbreiðslu yfir höfuð?

Loks er það leturhumarinn góði, sá verðmæti stofn. Veiðar námu 2.500 tonnum á ári á árunum 2004–2010, en hröpuðu niður í 728 tonn árið 2018, og á árunum 2020 og 2021 hljóðaði veiðiráðgjöfin upp á 214 tonn og 143 tonn. Þannig að það eru ekki stór orð að tala um hrun þessa stofns. Ég kann ekki skýringar á því en ég leyfi mér að benda á ofveiði. Ég bendi á umhverfisóvænan veiðibúnað, þung troll og umhverfisbreytingar í hafinu, breytingu á hitastigi og seltu sjávar, og aukna setmyndun í sjó vegna meira rennslis jökulvatna. Þetta geta allt verið hugsanlegar orsakir. En ég spyr þá aftur: Hvað er til bragðs að taka? Ef við eflum rannsóknir þá er spurningin: Hvernig? Notum við frekar gildrur til veiða en troll? Hvað þurfum við að skilja til að vita betur um þennan verðmæta stofn?

Nú er hafinn áratugur hafsins á vegum Sameinuðu þjóðanna, 2021–2030. Við þurfum að styrkja bláa hagkerfið á þessum tíma. Við þurfum að bæta sjálfbærniviðmiðin. Við þurfum að efla hafrannsóknir og síðast en ekki síst þurfum við að finna betri leiðir til að nýta sjávarafurðir á öllum stofnum á sjálfbæran hátt.