151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

auknar rannsóknir á þremur nytjastofnum í sjó við landið.

[13:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir þá umræðu sem hér er að hefjast. Hann beindi til mín þremur spurningum og ég leitaði eftir ráðgjöf hjá Hafrannsóknastofnun til svars við þeim. Ég styðst við þau svör í þeim orðum sem ég læt falla hér á eftir.

Stofnmat og veiðiráðgjöf grásleppu byggist á stofnmælingu botnfiska sem gerð er að vori. Í þessum leiðangri, sem hefur verið farinn allt frá árinu 1985 til yfirstandandi árs, hafa að meðaltali fengist um 950 grásleppur á ári. Hrognkelsi hafa verið á þessum stöðvum í 28–53% tilvika. Að meðaltali hefur verið farið á 570 mælipunkta á hverju árabili og staðan er þannig að það fást færri rauðmagar á þessum stöðvum en grásleppur, þeir eru til muna færri. Hafrannsóknastofnun vill þar með ekki fallast á að stofnmat hennar í grásleppu byggist á tiltölulega fáum fiskum. Það er hins vegar mat Hafrannsóknastofnunar að vísitala um stærð grásleppustofnsins frá stofnmatinu gefi góða mynd af stærð og þróun stofnstærðar og byggir stofnunin veiðiráðgjöfina á þessari vísitölu. Hún bendir á að góð fylgni hafi verið á milli afla á sóknareiningu og vísitölunnar sem stuðst er við, þ.e. stofnmælingar botnfiska að vori. Til staðfestingar þessu má nefna að vísitalan í ár var sú hæsta frá upphafi mælinga, enda hafa aflabrögð verið með eindæmum góð. Bent er á að stofnmælingin fangi vel sveiflur í stofnstærð. Til viðbótar þessu eru tveir árlegir rannsóknarleiðangrar sem eru í gangi, sem eru netarall og makrílleiðangur sem farinn er í júlí. Tekið er undir það sem hv. þingmaður nefnir hér varðandi bata í rannsóknum, og við viljum meina að þar séu aðallega fjögur atriði undir; frekari þróun á aldursgreiningu grásleppu, nánari rannsóknir á hrygningarstofni, mat á hrygningardauða, rannsóknir á stofnerfðafræði hrognkelsis og útbreiðsla mismunandi stofnhluta. Rannsóknir á flestum þessara þátta eru í gangi eins og fjármagn leyfir hverju sinni í fjárlögum Hafrannsóknastofnunar.

Í mati á veiðiþoli sæbjúgna hefur verið stuðst við afla á sóknareiningu veiðiskipa en slík nálgun hefur ýmsa annmarka. Til að styrkja veiðiráðgjöf sæbjúgna var því ákveðið á síðasta ári að bæta við stöðluðum togum og myndavélasniðum á sæbjúgnaslóð í grunnslóðarleiðangri til að hægt yrði að nálgast betur mat á breytingum í stofnstærð sæbjúgna, óháð veiðum. Vonir Hafrannsóknastofnunar standa til að á næstu árum verði hægt að byggja ráðgjöfina á þessum gögnum en að sjálfsögðu tengist það fjármögnun stofnunarinnar hverju sinni.

Varðandi humarinn þá var aðferðum við stofnmælingar á honum breytt 2016, frá því að notast við mælingu með humarvörpu í að telja humarholur með neðansjávarmyndavélum. Það er í samræmi við það sem Alþjóðahafrannsóknastofnunin hefur mælt með til stofnmælinga. Jafnframt var á árinu 2018 hafist handa við að safna humarlifrum í þessum leiðangri til að fá mat á hugsanlega nýliðun stofnsins. Síðastliðið haust var ráðist í atferlisrannsóknir á humri til að fá mat á virkni hans og notkun á holum en slíkt getur varpað ljósi á óvissuþætti í stofnmati. Við styrktum þessar rannsóknir sérstaklega af ákveðnum lið frá ráðuneytinu. Hafrannsóknastofnun getur ekki fallist á að orsakir þess að afli í humri hefur dregist saman séu óþekktar og í raun ekki óumdeildar heldur því að viðvarandi nýliðunarbrestur hefur verið í humarstofninum undanfarin 16 ár. Stofninn hefur minnkað hratt á undanförnum árum. Það sjáum við bæði í gögnum sem og hjá veiðiskipum þrátt fyrir tækniframfarir í veiðum. Stofninn er talinn hruninn, þ.e. undir varúðarmörkum, og ljóst er að ef ekki kemur fram sterkur árgangur í humri munu líða a.m.k. 5–10 ár þangað til hans fer verulega að gæta í veiðum á ný og ástand stofnsins að skána. Ráðgjöf stofnunarinnar hefur miðast við þessa stöðu undanfarin ár, þ.e. mjög takmarkaðar veiðar og lokun svæða til að draga úr álagi á humarslóð.