151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

auknar rannsóknir á þremur nytjastofnum í sjó við landið.

[13:49]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa umræðu um nytjastofna í sjó við Ísland, um þrjár fríðleiks- og gæðategundir. Það er ýmislegt sem bendir til að vísindamenn hafi ekki þau verkfæri sem til þarf svo hafa megi fullnægjandi yfirsýn um stærð og viðgang stofna og hvaða takmarkanir og möguleikar felist í að nytja þá. Hrognkelsa- eða grásleppuveiðar eru lifandi dæmi, mikilvægur þáttur í atvinnulífi á ákveðnum landsvæðum í fleiri mannsaldra. Eitt ágreiningsefnið er hreinlega stærð og hegðun grásleppustofnsins, það hversu slaklega við höfum rannsakað þessa og fleiri tegundir og á hæpnum forsendum, við veiðiráðgjöf jafnvel stuðst við gamlar afladagbækur eins og vísindagögn, frá þeim tíma þegar allt aðrar verkunaraðferðir tíðkuðust.

Tilraunaveiðar á sæbjúgum hófust svo árið 2003. Þær jukust hratt og skiluðu mestu á land fiskveiðiárið 2017/2018 eða ríflega 5.400 tonnum. Árið eftir sló heldur betur í bakseglin og Hafró ráðlagði ekki meira en 1.730 tonn. Engu að síður reyndist veiðin nærri helmingi meiri eða um 3.200 tonn á síðasta ári. Á Flateyri er verið að setja upp um þessar mundir verksmiðju sem áætlað er að veiti allt að 10 manns vinnu allt árið við sæbjúgnavinnslu. Á sama tíma er verið að takmarka veiðarnar á öllum svæðum undan Vestfjörðum niður í sirka 300 tonn en var vel á annað þúsund tonn þegar mest var. Hvað segir þetta?

Um humarveiðarnar þarf ekki að fara mörgum orðum. Þar hefur verið algjört hrun, nú er veiðin 6–7% af því sem veitt var fyrir áratug.

Blasir ekki við, herra forseti, að verið er að ganga á þessa stofna og fleiri með ósjálfbærum hætti? Þarf ekki að bæta verulega rannsókn á lífríki sjávar við Ísland og tryggja Hafrannsóknastofnun aðstöðu og fjármagn (Forseti hringir.) til nauðsynlegra rannsókna, eins og málshefjandi hafði orð á?

Herra forseti. Er þetta fiskveiðistjórn sem ástæða er til að guma af á heimsvísu?