151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

auknar rannsóknir á þremur nytjastofnum í sjó við landið.

[13:51]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, frumkvæðið að þessari umræðu. Því meiri upplýsinga sem okkur tekst að afla um vistkerfi hafsins og einstakar tegundir, þeim mun meiri möguleikar skapast á sjálfbærum nytjum, vernd lífríkis og vistkerfa og verðmætasköpun úr auðlindum hafsins. Ísland á þess vegna á öllum tímum að leggja áherslu á að rannsaka lífríki hafsins, bæði stofna sem við nýtum nú þegar og aðrar tegundir.

Hér í dag eru hrognkelsið, grásleppan, humarinn og sæbjúgun sérstaklega til umræðu. Hrognkelsi hefur líklega verið nytjað frá upphafi Íslandsbyggðar en sæbjúgun og humarinn síður enda lífverur sem lifa á meira dýpi og voru lítt aðgengilegar meðan við réðum yfir minni tækni.

Hugleiðingar sem vakna hjá mér varðandi fyrirkomulag þekkingaröflunar, þegar nýting hefst á nýjum stofni þar sem hvorki er til staðar vísindaleg þekking frá Íslandsmiðum né reynsluvísindi sjómannsins, eru hvort við eigum einhverjar verklagsreglur um samstarf frumkvöðla og Hafrannsóknastofnunar um þekkingaröflun þegar nýting nýrra stofna hefst. Hæstv. ráðherra, er ekki fullt tilefni til slíks samstarfs og sérstaks verklags? Tilraunaveiðar á sæbjúgum hófust árið 2003. Mest fór heildaraflinn í 5.000–6.000 tonn en í ár eru útgefin leyfi aðeins 2.200 tonn og síðustu ár. Ráðgjöf Hafró er samsett úr mati á veiðiþoli ólíkra svæða og heimilda til tilraunaveiða utan þeirra sem ná þá mest 50 tonnum í hverju hólfi. Ég velti fyrir mér hvernig sé svo unnið úr þessum upplýsingum til að auka þekkingu á stofninum. Það er svo annað mál að eðlilegt væri að kvótasetja veiðarnar og því legg ég áherslu á að atvinnuveganefnd geri atlögu að því að afgreiða fyrirliggjandi frumvarp um veiðar á sæbjúgum þótt það sé hluti af öðru stærra og umdeildara máli.