151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

auknar rannsóknir á þremur nytjastofnum í sjó við landið.

[13:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Varðandi grásleppu þá vitum við að hún hrygnir á grunnslóð uppi í fjöru en elst síðan upp í efstu lögum sjávar í óravíddum úthafsins. Stofnstærð þessarar fisktegundar er tómt rugl, sem sést best á þeirri gríðarmiklu hrognkelsisgengd sem verið hefur við strendur landsins nú í vor og stendur enn yfir og virðist ekkert lát á. Aflabrögð hafa verið langt umfram þær væntingar sem lesa mátti út úr svokallaðri ráðgjöf vísindamanna Hafrannsóknastofnunar. Nær væri að þeir væru látnir einbeita sér að rannsóknum á líffræði og gögnum um útbreiðslu hrognkelsa en að þeir sitji langdvölum og reikni út allt vit í stofnstærðum sem byggja á óhaldbærum gagnagrunni. Það er af og frá að grásleppubátar geti nokkru sinni ofveitt þennan stofn. Veiðar úr honum fara fram við ströndina og strandlengja Íslands er gríðarlega löng og fráleitt að nokkrar netalagnir þar sem veiðist í fáeinar vikur að vori skipti nokkru máli.

Hins vegar er spurning hvort ekki mætti skoða enn betur en nú er gert veiðistærð hrognkelsis sem meðafla í flotvörpu fiskiskipa, bæði heildarmagn og líka lengdardreifingu og aldur þeirra hrognkelsa sem þannig veiðast, og í úthafinu. Þær upplýsingar gætu skilað dýrmætum gögnum um útbreiðslu hrognkelsa í úthafinu. Þeirra yrði aflað með rannsóknum sem færu fram um borð í flotvörpuskipunum og væri grásleppumeðaflinn þá tekinn til rannsóknar og skráningar.

Forseti. Vissulega þarf að endurmeta allar okkar rannsóknir á hrognkelsum og taka þær til gagnrýninnar endurskoðunar með umbætur í huga. Það gildir reyndar um allar okkar haf- og fiskrannsóknir. Sem fiskveiðiþjóð getum við ekki leyft okkur annað en að stórefla líffræðilegar og vistfræðilegar rannsóknir í hafinu umhverfis Ísland. Við í Flokki fólksins viljum meira af slíkum rannsóknum en minna af gagnslausum úttektum sem byggjast á álíka rugli og þegar Sölvi Helgason var sagður hafa reiknað tvíbura í konu og var annað barnið svart en hitt hvítt. Slíkt á ekkert skylt við alvöruvísindi.

Virðulegur forseti. Vitanlega þarf að gera gangskör að því að auka rannsóknir á öllum tegundum hér við land, ekki síst á líffræði þeirra og útbreiðslu, á vistkerfi hafsins og umhverfi Íslands. — Ég kem í seinni ræðu að humri og sæbjúgum.