151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

auknar rannsóknir á þremur nytjastofnum í sjó við landið.

[14:03]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir þessa umræðu og ráðherranum fyrir skjót svör. Ég vil byrja á því að segja þá skoðun mína að Hafrannsóknastofnun hafi ekki nægilegt fjármagn eða svigrúm til að sinna öllum þeim rannsóknum sem við myndum vilja sjá. Grásleppa, sæbjúgu og humar eru hluti þeirra tegunda sem þarfnast meiri tíma og fjármagns til rannsókna. Grásleppan er rannsökuð í togararallinu sem gefur mynd af stöðu stofnsins en þó ekki nægilegar upplýsingar að margra mati. Sæbjúgun hafa lítið verið rannsökuð en nokkuð byggt á veiðum annarra þjóða og rannsóknum á þeim stofni og atferli hans.

Í upphafi þessa kjörtímabils voru að frumkvæði mínu haldnir fundir í atvinnuveganefnd með Hafró, útgerðarmönnum og humarverkendum vegna slæmrar stöðu humarstofnsins. Nú er svo komið að stofninn er hruninn. Fyrir nokkrum árum var algengt að í fimm tíma togi væri aflað 200–300 kg af humarhölum. Nú er svo komið að eftir fimm tíma tog er afurðin um 5 kg á humarbleyðum á þessari vertíð. Reyndir sjómenn og skipstjórar með áratugareynslu þekkja ekki lengur humartogslóðirnar sem þeir fiskuðu svo vel á á árum áður. Það þarf að auka rannsóknir á því hvort of stór skip og of þung veiðarfæri hafa þau áhrif á búsvæði humarsins að þau skemmist.

Virðulegi forseti. Þegar humarveiðar voru að dragast upp veiddist eingöngu stór humar. Engin nýliðun var í stofninum og það hræddi menn. Loftslagsbreytingar, segja sumir. Íslenskur humar í köldum sjó hrygnir einu sinni á tveggja ára fresti þegar sami stofn hrygnir einu sinni á ári í hlýrri sjó, þannig að það hefur ekki þau áhrif. Um leið og við eflum rannsóknir á þessum stofnum þarf að hafa í huga reynslu okkar bestu manna í skipstjórastétt sem þekkja humarmiðin eins og lófann á sér.

Virðulegur forseti. Um leið og við verðum að auka getu Hafró til rannsókna og mats á fiskstofnum og afrakstri af þeim (Forseti hringir.) þarf að bæta humarútgerðinni tjónið sem hún hefur orðið fyrir vegna hruns humarstofnsins.