151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

auknar rannsóknir á þremur nytjastofnum í sjó við landið.

[14:05]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Það er aldrei of mikið rætt um sjávarútveg enda er sjávarútvegur enn þá ein af okkar helstu undirstöðuatvinnugreinum. Þess vegna er þessi umræða einnig mikilvæg. Ég tek undir það með málshefjanda að auka eigi rannsóknir á þeim stofnum sem hér voru nefndir, þ.e. á sæbjúgum, humri og grásleppu. Ég vil einnig nota tækifærið og benda á að ég tel að stórauka eigi rannsóknir á loðnu, atferli hennar og hrygningar- og göngumynstri. Það er alkunna að hrun hefur orðið í humarstofninum á síðasta áratug. Nær engin nýliðun hefur verið í humarstofninum frá 2010 til 2011, en eldri humar hefur haldið uppi veiðunum nokkur ár þar á eftir. Nú er svo komið að við veiðum einungis innan við 10% af því sem var hér fyrir 10–12 árum, þannig að það er eitthvað mikið að gerast. Sóknargeta togaranna hefur stóraukist, togarar á humri eru orðnir miklu aflmeiri og með meiri toggetu en fyrir bara nokkrum árum. Þetta hefur óneitanlega áhrif á búsvæði humarsins og það þarf auðvitað að rannsaka. Hverjar sem orsakirnar eru fyrir hruni stofnsins, sem getur auðvitað endað í því að þessar veiðar verði alfarið bannaðar um tíma, hefur á svipuðum tíma einnig verið hrun í sandsíli og sjófugli á sunnanverðu landinu og líka í keilu og blálöngu, en sumir þessara stofna virðast hafa verið að ná sér síðastliðin ár þannig að þetta er ekki einungis bundið við humarinn.

Ég vil ljúka máli mínu á að benda á að humarveiðar eru mjög mikilvægar við suðurströndina, sérstaklega á Höfn í Hornafirði og í Vestmannaeyjum. Ég legg til að þingið taki það einnig til umræðu hvernig bregðast eigi við því þegar atvinna, vegna svo mikilvægrar tegundar, fellur svona skart og mikið á einstaka landsvæðum.