151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

auknar rannsóknir á þremur nytjastofnum í sjó við landið.

[14:10]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta er góð umræða og mikilvæg og ætla ég í þessari seinni ræðu að víkja aðeins að hrognkelsunum. Við lítum oft þannig á að hrognkelsi sé fiskur sem ferðist lítið, haldi sig á grunnsævi og jafnvel alla tíð í sömu fjörunni. Það er þó fjarri lagi. Hann lifir á hörðum botni á 20–200 m dýpi en utan hrygningartímans finnst hann oft langt úti í hafi. Það hefur verið ákveðinn vandræðagangur uppi með mat á veiðiþoli stofnsins síðustu ár en þó hefur verið farið í ákveðnar leiðréttingar, m.a. við mat á veiðinni, aftur í tímann. Rannsóknir á stofnstærð og afkomu hrognkelsisins hafa þrátt fyrir það, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra áðan, sýnt nokkuð gott samræmi í niðurstöðum á stofnstærðarmati og grásleppuveiðinni á hverju vori. Reynslan sýnir samt að það er full ástæða til að horfa jafnframt til fleiri mælikvarða til að ná betra samhengi í fjölbreyttar upplýsingar sem fyrir liggja og til að móta mælikvarða til að vakta stofninn til framtíðar.

Sjávarlíftæknisetrið BioPol á Skagaströnd hefur frá 2008 fengist við rannsóknir á lífsháttum og hegðunarmynstri hrognkelsa og einmitt sýnt fram á umfangsmikil ferðalög einstakra fiska með ströndum landsins á hrygningartíma, sem hafa komið mörgum á óvart. Það leiðir hugann að ýmiss konar nýrri tækni sem á eftir að auka tækifæri til hafrannsókna, svo sem ýmiss konar tækni við fjarkönnun sem á bæði að geta nýst á yfirborði sjávar og á botninum. En síðan, eins og fram hefur komið í umræðunni, er mjög mikilvægt að hvetja til nýsköpunar við að nýta allan þann feng sem að landi kemur, öðruvísi náum við ekki sjálfbærni. Að lokum: Ættu íslenskar rannsóknastofnanir eins og Hafrannsóknastofnun ekki að leggja meira upp úr almennri fræðslu og upplýsingagjöf, skrifum á mannamáli, um stöðu einstakra tegunda til að efla almenna þekkingu á hafinu?