151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

auknar rannsóknir á þremur nytjastofnum í sjó við landið.

[14:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Sæbjúga og leturhumar — víkjum fyrst að sæbjúganu. Nokkrir bátar hafa stundað veiðar á þeim undanfarin ár. Sæbjúgu eru hryggleysingjar sem vart eða ekki er hægt að aldursgreina og skipta í árganga. Eflaust skortir töluvert á rannsóknir á þessum lífverum og útbreiðsla þeirra er að miklu leyti ókönnuð. Fylgjast þarf grannt með afla í sóknareiningu á skilgreindum veiðisvæðum en líka stærðarsamsetningu aflans. Vafi leikur á að rétt sé að setja kvóta á þessar veiðar þar sem ekkert er vitað um stofnstærð eða þróun á henni. Sóknarnýting með vistvænum veiðarfærum og vökulu auga fyrir afla í sóknareiningu er skynsamlegri leið til sjálfbærrar nýtingar. Þá má líka spyrja hvort ekki sé ástæða til að reyna að kanna hvort og þá hvernig þeir plógar sem dregnir eru eftir hafsbotninum skaða annað lífríki á botninum eða hvort veiðarnar leiði til vistkerfisbreytinga.

Þó ber að geta þess að Bergur Garðarsson, skipstjóri á Akranesi, sem er frumkvöðull í þessum veiðum, segir í samtali við Fiskifréttir í maí 2019, að menn hafi tekið upp plóga sem ganga á hjólum í stað skíða og það fari betur með botninn. Í sama viðtali segir að svo virðist sem kvótasetningin hafi leitt til rányrkju á miðunum þar sem menn hafi verið að draga ítrekað sömu blettina til að ná sér í veiðireynslu sem gæti legið til grundvallar við kvótasetningu. Hvað þarf að hvíla bleiðurnar lengi eftir að dregið hefur verið á þeim? Ljóst er að tíminn og reynslan hefur kennt mönnum ýmislegt varðandi sæbjúgað og vonandi fylgist Hafrannsóknastofnun grannt með.

Þá að humrinum. Þar hefur veiðin gjörsamlega hrunið og stofninn með. Hvað veldur? Nýliðunarbrestur. En af hverju? Er kynþroska humar horfinn vegna ofveiði eða rányrkju? Eða eru það náttúruöflin vegna afráns annarra tegunda, svo sem þorsks og kannski makríls. Hvað með þau veiðarfæri sem notuð hafa verið? Vekja má athygli á fyrirspurn hv. þm. Ingu Sæland til hæstv. sjávarútvegsráðherra um humarveiðar á 149. löggjafarþingi 2018–2019. Þar kemur ýmislegt áhugavert fram (Forseti hringir.) en því miður gefst ekki tími til að reifa það nánar í þessari umræðu.