151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

auknar rannsóknir á þremur nytjastofnum í sjó við landið.

[14:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur átt sér stað og sérstaklega málshefjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni. Hér hefur verið töluvert rætt um umhverfismálin og loftslagsmálin og áhrif þess á það sem við erum að gera varðandi rannsóknir og þá vil ég nefna, og er þá m.a. að bregðast við orðum hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar, að nú er væntanleg skýrsla frá Hafrannsóknastofnun sem unnin er að minni beiðni og er um umhverfis- og vistkerfisbreytingar í hafinu umhverfis Ísland. Meginspurningin þar er hvað sé að gerast í hafinu og þar á að ræða helstu áskoranir sem við blasa sem stafa af völdum loftslagsáhrifa. Stofnunin mun draga þar upp mögulegar sviðsmyndir og hvernig best verði brugðist við með tilliti til þeirra áherslna sem stjórnvöld verða að leggja á komandi árum í þágu rannsókna á þessari mikilvægu auðlind okkar. Það er vel og ég tel að það sé mikill samhljómur í þingsal í þessari umræðu eins og oft áður um að við eigum að styrkja grunnrannsóknir eins vel og við mögulega getum hverju sinni.

Við höfum eðlilega skiptar skoðanir á fiskveiðistjórnarkerfinu en ég vil ítreka að fiskveiðistjórnarkerfið á Íslandi er í raun tvíþætt. Annars vegar er þetta líffræðileg og lífræn stjórnun og hins vegar er þetta stjórnun á veiðum á grunni þess sem við ákveðum hvert heildaraflamark á að vera. Við komum okkur saman um það á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og sem betur fer fylgjum við henni í öllum megindráttum. Síðan eru átökin um stjórnun veiðanna. En skilaboð stjórnvalda hingað til til sjávarútvegsfyrirtækjanna hafa verið: Hámarkið afrakstur þessarar takmörkuðu auðlindar eins mikið og þið mögulega getið og þið hafi töluvert frelsi til þess. En að sjálfsögðu eru alltaf skiptar skoðanir pólitískt um það hversu langt eða skammt eigi að ganga í þeim efnum.

Ég þakka kærlega fyrir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað.