151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[14:24]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Vissuð þið að fyrir tveimur árum samþykkti Alþingi að það bæri að lögfesta samninginn um réttindi fatlaðs fólks? Vissuð þið að fyrir hálfu ári átti ríkisstjórnin að vera búin að leggja fram frumvarp um lögfestinguna? Vissuð þið að ríkisstjórnin er framkvæmdarvald og henni ber að framfylgja vilja þingsins? Vissuð þið að ekkert frumvarp um lögfestingu er komið fram frá ríkisstjórninni þrátt fyrir skýran vilja þingsins? Ríkisstjórnin hefur ekkert val hér að mínu mati. En er þessari ríkisstjórn virkilega alvara að láta þetta mál af öllum, mál sem snertir mannréttindi fatlaðs fólks og öryrkja á Íslandi, mæta afgangi? Þetta mál sem við vorum að greiða atkvæði um hér er um þýðinguna, gott og vel, en lögfestingin er eftir. Ég auglýsi eftir lögfestingu á frumvarpinu sem við erum öll búin að samþykkja að ríkisstjórnin leggi fram. Hvar er frumvarpið, hæstv. forsætisráðherra?