151. löggjafarþing — 93. fundur,  11. maí 2021.

Ný þýðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

568. mál
[14:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er mikið fagnaðarefni að við séum að fara að greiða atkvæði um nýja þýðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks vegna þess að fyrri þýðing hefur verið gagnrýnd af samtökum fatlaðs fólks og fagfólki. Það er algjört grundvallaratriði, og ég furða mig dálítið á þeirri umræðu sem hér hefur verið, fyrir okkur sem berjumst fyrir lögfestingu á samningnum að það liggi fyrir þýðing sem sátt ríkir um. Það er því mikið fagnaðarefni að við séum að greiða hér atkvæði um þýðinguna og í umfjöllun nefndarinnar kom fram að það ríkir sátt um hana, bæði meðal þeirra sem málið varðar sérstaklega sem og fræðafólks á málefnasviðinu.