151. löggjafarþing — 94. fundur,  11. maí 2021.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru o.fl.

769. mál
[14:52]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Óli Björn Kárason minntist á skrifaði ég undir nefndarálitið með fyrirvara. Ég ætla aðeins að gera grein fyrir honum eða þeim vegna þess að þeir eru nokkrir en þeir snúa ekki að málinu sem slíku. Málið sem slíkt er ágætt enda hefði ég annars ekki undirritað nefndarálitið. Atriði sem mér finnst vanta og kalla á fyrirvara er í fyrst lagi: Nú hafa staðið yfir töluvert umfangsmiklar og í mörgum tilfellum dýrar efnahagslegar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins og það er fullkomlega eðlilegt í ljósi aðstæðna. En ekki hefur farið fram nein greining, alla vega ekki nægilega ítarleg greining, svo að maður sé sanngjarn, á því hverjir hafa notið góðs af þeim aðgerðum sem farið hefur verið í og hverjir hafa ekki notið góðs af þeim. Eins og hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi hér áðan stendur til að koma með tillögur frá nefndinni um að farið verði í slíka greiningu og ég þakka honum fyrir að taka vel í þá tillögu að gera slíkt. Það er mikilvægt í þessu árferði að við pössum að enginn verði út undan.

Annar gagnrýnispunktur minn er að þessar aðgerðir, og ég hef svo sem haldið ræður um þetta áður, eru í mörgum tilfellum byggðar á handahófskenndri þrepaskiptingu þar sem valin var einhver prósentutala og henni leyft að vera vendipunkturinn sem skilur á milli stuðnings og ekki stuðnings. Ég hefði frekar viljað, og hef svo sem rætt um það margsinnis, að umfang stuðnings væri í réttu hlutfalli við þörfina, að svona þrep væru ekki notuð.

Þriðja atriðið snýr að því hvernig málið varð til og hvernig það var unnið. Það var öllum ljóst, sem voru að fylgjast með þessu, að það þyrfti framlengingu þannig að það er ólíðandi að þetta skyldi hafa komið inn á síðustu stundu og þurft svona hraða meðferð í efnahags- og viðskiptanefnd. Það er hægt að halda langar og alveg merkilega leiðinlegar ræður um það hvernig ríkisstjórnin nær einhvern veginn alltaf að búa til algerlega tilgangslausa tímapressu sem veldur þinginu erfiðleikum, veldur því að málsmeðferð er ekki jafn góð og hún þyrfti helst að vera og í raun er bara merkilegt að efnahags- og viðskiptanefnd hafi náð að sinna þessu máli þokkalega vel. En það á eftir að koma í ljós hvort eitthvað hafi orðið út undan í yfirferðinni, þetta er allt of mikill hraði.

Við þurfum að geta vandað til verka og það er ekki hægt nema fyrir liggi skýr tímalína og málin komi snemma til þingsins, með nægum fyrirvara til að hægt sé að koma hlutum í verk án þess að unnið sé í tímapressu. Í þetta skipti er ég til í að sætta mig við þessa heimatilbúnu tímapressu vegna þess að þetta skiptir máli fyrir þau fyrirtæki og þau heimili sem njóta góðs af þessu. Ég veit ekki hvort hægt er að óska eftir því að breytt verði út af þessum vana, þetta hefur verið svona allan þann tíma sem ég hef verið á þingi. En við hljótum að geta gert betur og ef það þarf eitthvað sérstakt til, t.d. fleira starfsfólk í ráðuneytunum, verðum við bara að gera það til þess að svona lagað verði almennileg unnið. Athugasemdir mínar eru sem sagt ekki um málið sem slíkt. Það er bara í fína lagi, held ég. Vonandi kemur ekkert annað í ljós.