Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 94. fundur,  11. maí 2021.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru o.fl.

769. mál
[14:57]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í máli framsögumanns, hv. þm. Óla Björns Kárasonar, formanns hv. efnahags- og viðskiptanefndar, erum við tveir þingmenn með fyrirvara á nefndaráliti við frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónaveiru, lögum um viðspyrnustyrki og lögum um tekjuskatt. Fyrir það fyrsta vil ég fagna því að við gátum komið inn setningu á bls. 2 í greinargerð nefndarálits við frumvarpið, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Nefndin telur ástæðu til að metinn verði sá árangur og ávinningur sem úrræðin hafa skilað samfélaginu. Nefndin er einhuga um nauðsyn þess að slík úttekt verði gerð.“

Herra forseti. Ég hefði óskað að þarna væri fæti stigið fastar niður varðandi mat á árangri aðgerða. Við erum að framlengja úrræði eins og efnahagsaðgerðir og styrki af þeim toga sem ríkisstjórnin hefur komið með hingað inn í þingið, og Alþingi hefur samþykkt og betrumbætt, aðgerðir sem ráðist er í til að mæta því gríðarlega fjárhagslega tjóni sem einstaklingar, rekstraraðilar og fyrirtæki hafa orðið fyrir vegna heimsfaraldursins og efnahagslegra áhrifa á samfélagið allt, og þetta eru neyðarúrræði, herra forseti, á borð við úttekt á séreignarsparnaði. Þá er gríðarlega mikilvægt að við greinum nákvæmlega hvaða hópum slík úrræði gagnast helst, hvort þau gagnast einhverjum og þá hverjum og sömuleiðis hvernig.

Þetta er, herra forseti, umfangsmikil vinna. Ég geri mér grein fyrir því að það tekur tíma að rannsaka og greina. En tölulegar upplýsingar eru til staðar og það skiptir meira máli, og verður betri ákvörðunartaka fyrir bæði ríkisstjórnina og þingið, löggjafann, að hafa nægjanlegar upplýsingar í höndunum þannig að við getum tekið betri ákvarðanir, skarpari og skýrari og áhrifameiri ákvarðanir er gagnast þeim sem þurfa mest á því að halda að fá styrki eða framlengingu á úrræðinu o.s.frv.

Mig langar í þessu samhengi, herra forseti, að benda til að mynda á ferðagjöfina sem nú hefur verið framlengd. Það hefur komið í ljós að hún hefur mest gagnast stórum fyrirtækjum þrátt fyrir að yfirlýstur tilgangur ferðagjafarinnar sé sá að styrkja rekstraraðila í ferðaþjónustu. Maður hefði haldið að því væri þá frekar beint til minni og meðalstórra fyrirtækja í ferðaþjónustu sem eiga um sárast að binda í kjölfar kórónuveirufaraldursins, að þá hefði verið upplagt að greina það áður en ákvörðun hefði verið tekin um framlengingu á því úrræði og hugsanlega taka líka upplýsta ákvörðun um að binda stuðninginn einhverjum skilyrðum svo að hann gagnist þeim sem mest þurfa á að halda.

Ég nefni þetta sem dæmi, herra forseti, um nauðsyn þess að greina og kanna og rannsaka hvernig þessi úrræði virka og fyrir hverja. Þar með tökum við betri ákvarðanir og grípum til áhrifaríkari aðgerða.

Að því sögðu mun ég og þingmenn í þingflokki Samfylkingarinnar styðja þetta mál, líkt og þingið hefur gert við allar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna kórónuveirufaraldursins. Og ég ítreka að þær aðgerðir hafa líka verið bættar í meðförum þingsins og það er vel.