Bráðabirgðaútgáfa.
151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta.

641. mál
[15:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um um lykilupplýsingaskjöl vegna tiltekinna fjárfestingarafurða fyrir almenna fjárfesta. Stutta útgáfan er sú að það barst bara ein umsögn og sú var frá Seðlabanka Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1286/2014 um lykilupplýsingaskjöl fyrir pakkaðar og vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir fyrir almenna fjárfesta, svokölluð PRIIPs-reglugerð, verði innleidd í íslenskan rétt.

Í umsögn sinni leggur Seðlabanki Íslands til að kveðið verði á um gildissvið laganna í sérstöku ákvæði. Með því móti verði tekinn af vafi um það til hvaða aðila og fjárfestingarafurða frumvarpið nái til. Meiri hlutinn tekur undir þetta.

Þá kemur einnig fram það sjónarmið að tilgreina ætti að Seðlabankinn sé lögbært yfirvald í skilningi reglugerðarinnar. Í því sambandi er bent á að Fjármálaeftirlitið sé hluti af Seðlabanka Íslands og að bankinn fari með þau verkefni sem Fjármálaeftirlitinu eru falin í lögum. Því sé Fjármálaeftirlitið ekki stofnun, öllu heldur sé tilvísun til þess í lögum vísun til eftirlitsstarfsemi Seðlabankans.

Herra forseti. Þessu nefndaráliti fylgja síðan viðeigandi breytingartillögur sem ég hef gert grein fyrir, auk annarra sem fylgja með nefndarálitinu.

Hv. þm. Smári McCarthy ritar undir álit þetta með fyrirvara en eftirtaldir hv. þingmenn skrifa undir álitið: Óli Björn Kárason, Jón Steindór Valdimarsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Smári McCarthy, með fyrirvara, og Hjálmar Bogi Hafliðason.