151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

íslensk landshöfuðlén.

9. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá umhverfis- og samgöngunefnd um frumvarp til laga um íslensk landshöfuðlén. Málið er 9. mál þessa 151. löggjafarþings þannig að nefndin hefur haft það til umfjöllunar mestallan þingveturinn, hefur fengið til sín gesti og farið yfir umsagnir sem hafa borist.

Með frumvarpinu er lagt til að samþykkt verði heildarlög um íslensk landshöfuðlén. Samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins á því hugtaki felur það í sér höfuðlén sem hefur beina skírskotun til Íslands, t.d. .is. Markmið lagasetningarinnar er m.a. að setja ramma utan um starfsemi skráningarstofa sem hafa umsjón með landshöfuðlénum með beinni skírskotun til Íslands. Nú er starfrækt ein skráningarstofa en meiri hlutinn bendir á að ekkert sé því til fyrirstöðu að fleiri skráningarstofur taki til starfa og starfi samtímis enda er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að lögaðili geti starfað sem skráningarstofa að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Nefndarálitið er upp á fimm blaðsíður þannig að ég mun ekki fara yfir það allt, en í umfjöllun nefndarinnar er komið inn á lokun, læsingu og afskráningu léna og aðeins fjallað um rétthafaskrá. Ég ætla að nota tímann til að fara yfir breytingartillögurnar og byrja á breytingum sem gerðar eru varðandi bráðabirgðaákvæði sem snúa að forkaupsrétti ríkissjóðs.

Í ákvæði til bráðabirgða I í frumvarpinu er kveðið á um að ríkissjóður eigi forkaupsrétt að öllum hlutum í félaginu Internet á Íslandi hf., ISNIC. Í greinargerð með frumvarpinu er um rök fyrir ákvæðinu vísað til öryggis- og almannahagsmuna þar sem sú þjónusta sem fyrirtækið veiti sé nauðsynleg fyrir eðlilega virkni internetsins hér á landi. Þá sé nauðsynlegt að gera ráðstafanir sem tryggi að starfsemin sé með lögheimili hér á landi undir íslenskri lögsögu

Það kom fram nokkur gagnrýni á þetta ákvæði og einkum út frá 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar. Því ætla ég að fara aðeins inn í umfjöllun nefndarinnar um það mál.

Ljóst er að forkaupsréttur sem grundvallast á lagafyrirmælum horfir til takmörkunar á friðhelgi eignarréttar sem varinn er af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í ákvæðinu segir að eignarrétturinn sé friðhelgur og engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Þar sem um er að ræða lögbundinn forkaupsrétt og kaupandi gengur inn í kaupin á sömu kjörum og kaupandi hefur boðið lagði nefndin einungis mat á þriðja skilyrðið, þ.e. að eignarrétt megi ekki skerða nema almenningsþörf krefji. Meiri hlutinn bendir á að skráningarstofa höfuðléna er aðili sem annast og vinnur að skráningu lénsheita undir sérstöku höfuðléni. Það er alþjóðleg stofnun sem sér um úthlutun höfuðléna, þar á meðal landshöfuðlén Íslands. Íslandi hefur verið úthlutað einu landshöfuðléni, .is, og um þessar mundir er Internet á Íslandi, ISNIC, eini aðilinn sem fer með skráningu, rekstur og stjórnun þess. Sú umsjón og stjórnun sem skráningarstofa höfuðléna hefur á höfuðlénum felur jafnframt í sér umbreytingu á höfuðlénum í IP-tölur og getur þannig starfsemi skráningarstofu tekið til lénsheitakerfis (DNS). Þá bendir meiri hlutinn á að ríkið hefur sérstakra hagsmuna að gæta varðandi úthlutun léna. Lénið .is er í raun eins og ákveðið bréfsefni merkt Íslandi og getur það haft áhrif á önnur íslensk lén, þar á meðal ríkisins, séu slík lén notuð í tengslum við glæpastarfsemi, hryðjuverk eða hernað. Önnur ríki eiga þá rétt til varnar og geta þær varnir hæglega skaðað ríkið, aðra í samfélaginu og ekki síst traust á íslenskum lénum. Með hliðsjón af framangreindu er mikilvægi skráningarstofa landshöfuðléna fyrir virkni netsins hér á landi óumdeilt að mati meiri hlutans. Netið er meðal mikilvægustu innviða íslensks samfélags og ljóst að verði skerðing á eðlilegri virkni þess hér á landi myndi það hafa ófyrirséðar afleiðingar fyrir atvinnulífið, öryggi ríkisins og samfélagið í heild. Að öllu þessu virtu er það mat meiri hlutans að mikilvægir almannahagsmunir búi að baki forkaupsréttarákvæði frumvarpsins og skilyrði 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf sé þar með fullnægt.

Nefndin tók sér góðan tíma til að skoða þetta mál og við vinnslu málsins aflaði nefndin sérfræðiálits um ákvæðið. Í því áliti kom fram að óvíst væri hvort ákvæðið næði þeim markmiðum sem að væri stefnt og settar voru fram nokkrar athugasemdir varðandi útfærslu þess. Með hliðsjón af þeim leggur meiri hlutinn til breytingar á ákvæðinu í því augnamiði að skýra og skerpa forkaupsréttarheimild ríkissjóðs.

Í fyrsta lagi er lagt til að forkaupsréttur ríkissjóðs nái einnig til þess þegar breytingar verða á yfirráðum yfir lögaðila sem á hlutafé í ISNIC, þ.e. að íslenska ríkið fari með forkaupsrétt að hlutafé þeirra lögaðila sem eru hluthafar í ISNIC. Þar með er spornað gegn því að hluthafar komi sér hjá forkaupsréttarákvæðinu með því t.d. að framselja hlutafé sitt til einkahlutafélags og selja síðan hlutafé í einkahlutafélaginu, en ekki hlutaféð sem er háð forkaupsrétti eins og ákvæðið stóð í frumvarpinu. Þá er jafnframt lagt til að eiganda Internet á Íslandi, ISNIC, beri að tilkynna ríkisskattstjóra og Póst- og fjarskiptastofnun um beint og óbeint eignarhald sitt í samræmi við lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.

Meiri hlutinn telur rétt að kveðið sé skýrt á um það með hvaða hætti forkaupsrétturinn skuli boðinn og hversu langan tíma íslenska ríkið hafi til að svara. Leggur meiri hlutinn því til að við ákvæðið bætist tvær nýjar málsgreinar þess efnis. Þar verði kveðið á um að berist kauptilboð í félagið eða hlutabréf þeirra aðila sem eiga bréf í félaginu skuli tilkynna það til Póst- og fjarskiptastofnunar án tafar, eigi síðar en innan 48 klukkustunda frá því að kauptilboðið kom til vitundar seljanda. Þá verði kveðið á um að komist á samningur skuli Póst- og fjarskiptastofnun bera samninginn undir ráðherra sem fer með málefni fjarskipta, fyrir hönd forkaupsréttarhafa, til samþykktar. Frestur ríkissjóðs til að svara forkaupsréttartilboði skuli vera 60 dagar frá því að tilboðið barst ráðherra.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að seljanda beri því skylda til að tilkynna öll kauptilboð til Póst- og fjarskiptastofnunar en forkaupsréttur virkist einungis þegar kominn er á bindandi samningur. Sé uppi vafi um hvort tilboð sé orðið bindandi óski Póst- og fjarskiptastofnun eftir staðfestingu á því hvort kominn sé á samningur. Varðandi tímalengd frestsins vísar meiri hlutinn til forkaupsréttarákvæðis í 5. mgr. 37. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013. Með vísan til þeirra ríku almanna- og öryggishagsmuna sem eru undir leggur meiri hlutinn til að kaup á hlutum sem bundnir eru forkaupsrétti komi ekki til framkvæmda á meðan frestur forkaupsréttarhafa er að líða, matsgerð um forkaupsréttarverð er enn ólokið eða rekið er dómsmál um forkaupsréttarverð. Sambærilegt ákvæði má finna í 17. gr. a samkeppnislaga, nr. 44/2005, um að samruni komi ekki til framkvæmda meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann.

Að síðustu leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða um kaupverð hluta en það byggist á 30. gr. jarðalaga, nr. 81/2004. Ákvæðinu er m.a. ætlað að taka á því ef seljandi og kaupandi semja um afar hátt verð til málamynda í því skyni að fæla forkaupsréttarhafann frá því að ganga inn í kaupsamninginn. Telji forkaupsréttarhafi að uppsett verð sé bersýnilega ósanngjarnt geti hann krafist mats dómkvaddra matsmanna á eðlilegu kaupverði. Meiri hlutinn leggur til að matsmenn skuli dómkvaddir fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þeir ákveði matskostnað og hvernig hann greiðist. Meiri hlutinn bendir á að hægt sé að leita endurskoðunar á þeirri ákvörðun fyrir dómi, sbr. 66. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Að lokum leggur meiri hlutinn til að dómsmál sem lýtur að ágreiningi um forkaupsréttarverð að loknu mati sæti flýtimeðferð samkvæmt ákvæðum XIX. kafla laga um meðferð einkamála.

Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif, utan tveggja sem ég ætla að fara aðeins yfir. Ég hef gert grein fyrir meginbreytingunni sem snýr að því að styrkja forkaupsréttarákvæði og bráðabirgðaákvæði frumvarpsins en varðandi hinar breytingarnar tvær snýr önnur að úrskurðarnefnd skráningarstofu. Þar er lögð til breyting sem skýrir það að það sé skylda skráningarstofu að starfrækja úrskurðarnefnd. Varðandi útfærsluna þá telur meiri hlutinn eðlilegt að líta til þeirra reglna sem ISNIC starfar eftir nú þegar þannig að nefndin sé skipuð einum til þremur nefndarmönnum eftir eðli máls. Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis við 8. gr. Jafnframt fylgir þá smávægileg breyting á 3. mgr. 10. gr. til að gæta samræmis.

Svo eru það réttindi og skyldur rétthafa hvað varðar skráningu hugverkaréttinda þar sem lagt er til að rétthafi beri ábyrgð á að notkun á léni samrýmist réttmætum og lögvernduðum hagsmunum hans og skerði ekki lögvarin réttindi annarra, svo sem hugverkaréttindi. Þetta leggur nefndin til því að vegna sífelldrar skörunar léna og hugverkaréttinda, einkum vörumerkja, sé nauðsynlegt að fram komi í ákvæðinu að skráning léns geti ekki farið gegn hugverkaréttindum annarra. Þar beri að líta til hugverkaréttinda í víðum skilningi því að önnur réttindi en vörumerki, svo sem höfundaréttur og réttur til afurðaheitis, geti komið til álita við notkun á orði eða orðasambandi sem léni.

Þá kom fram, sem snýr að þessu sama, réttindum og skyldum rétthafa, gagnrýni á efni 2. og 3. málsliðar 3. mgr. 12. gr. þar sem er tilgreint að nafn léns megi ekki tengjast refsiverðri háttsemi eða brjóta gegn lögum, skuli samræmast alþjóðlegum skuldbindingum Íslands og ekki vera til þess fallið að skaða orðspor landsins að öðru leyti. Ekki væri ljóst í hverju ábyrgð rétthafa léns samkvæmt ákvæðinu fælist en ekki væri að finna nánari skýringar á því hvernig ætti að túlka ákvæðið í greinargerð með frumvarpinu. Óljóst væri hvernig ætti að framfylgja því og vandmeðfarið hvernig setja ætti slíkar reglur um heiti léns án þess að taka notkun þess til skoðunar. Meiri hlutinn tekur undir þessar athugasemdir og leggur til að 2. og 3. málsliður 3. mgr. falli brott.

Síðan er ein breyting í viðbót sem snýr að lokun og haldlagningu skráðra léna. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að til þess að hægt sé að fara fram á lokun og haldlagningu skráðra léna, til þess að þeirri heimild verði beitt, þurfi lénið að vera notað til að miðla ólöglegu efni eða efni sem hvetur til refsiverðrar háttsemi sem varðar við almenn hegningarlög og meint brot geti varðað fangelsisrefsingu allt að tveimur árum eða meira. En í greinargerðinni kemur fram að til þess að heimildinni verði beitt þurfi efnið að vera alvarlegs eðlis. Í því ljósi og með hliðsjón af gagnrýninni leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að í ákvæðinu verði miðað við að meint brot varði fangelsisrefsingu allt að sex árum í stað tveggja. Það er mat nefndarinnar að það verði mjög snúið í rauninni að leggja mat á beitingu ákvæðisins eins og það stendur í frumvarpinu og leggur nefndin því til þessa breytingu.

Þá hefur verið gerð grein fyrir breytingartillögum við frumvarpið og eins og áður sagði voru líka örlitlar breytingar tæknilegs eðlis. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita Líneik Anna Sævarsdóttir, framsögumaður, Ari Trausti Guðmundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Vilhjálmur Árnason, Guðjón S. Brjánsson og Jón Gunnarsson, sem var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Þá er Andrés Ingi Jónsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, samþykkur álitinu.