151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

Neytendastofa o.fl.

607. mál
[16:09]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir öðru máli úr ranni Hagsmunasamtaka heimilanna, þeirrar háæruverðugu stofnunar. Fjallar þetta frumvarp um breytingu á lögum um Neytendastofu, lögum um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda og lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., réttarúrræði neytendaverndarsamtaka.

Aftur ætla ég að spila sama leikinn og í málinu sem ég var að ljúka við að mæla fyrir, frekar en að fara út í lagatæknileg atriði sem henta betur lestursetu að mínum dómi og af minni reynslu ætla ég að reyna að útskýra málið á hinu svokallaða mannamáli. Það eru til samtök sem gæta að heildarhagsmunum neytenda, til að mynda Hagsmunasamtök heimilanna. Þau eru vafalítið fleiri. Þessi samtök hafa átt í þeim vandræðum í sinni baráttu að þau hafa ekki svokallaða lögvarða hagsmuni. Þetta grundvallast m.a. á því að Neytendastofa hefur í dag ekki skýra heimild til að taka við kvörtunum frá neytendum og samtökum sem gæta að heildarhagsmunum neytenda sem varða brot á lögum á málefnasviði Neytendastofu. Þessu frumvarpi er ætlað að gera þeim stofnunum sem er ætlað að vernda þessa hagsmuni kleift berjast fyrir þeim hagsmunum án þess að þurfa sífellt að setja eigin baráttu í hendurnar á fórnarlömbunum.

Nú ætla ég að taka dæmi sem sum kannast kannski við sem varðar ekki bara þennan málaflokk heldur kannski fleiri, til þess að lýsa þeim aðstæðum sem geta komið upp í okkar ágæta samfélagi þegar kemur að réttindavernd fólks í gjörningum sem eru gerðir, einhvers konar fjármálagjörningum. Kannski er skýrasta dæmið, þó einungis eitt dæmi, smálán. Smálán eru fyrirbæri sem við hér á þingi eigum að þekkja ágætlega en því miður er stór hópur fólks í samfélaginu sem þekkir það ekki nógu vel til þess að forðast þessi hræðilegu lán. En án þess að fara mikið út í eðli þeirrar starfsemi í sjálfu sér þá ætla ég að láta það sitja eftir að þegar einstaklingar sem gera samninga við aðrar fjármálastofnanir eða aðra aðila þurfa alltaf að berjast sjálfir, þurfa alltaf að berjast einir, þá er hægt að þreyta fólk til hlýðni með því einfaldlega að vera nógu sterkur eða nógu þrjóskur. Þess vegna er mjög mikilvægt að hagsmunasamtök, t.d. Hagsmunasamtök heimilanna eða Neytendasamtökin eða einhver slík samtök, geti með raunverulegum aðferðum barist fyrir þessum sömu hagsmunum.

Þetta frumvarp og það sem ég lýsti áðan eru bæði hugsuð til að ná slíkum markmiðum, þ.e. þetta er annað svokallað „computer says no“-vandamál. Í rauninni er ekki efnislegur ágreiningur um það hvort starfsemin sem hér um ræðir sé lögmæt eða ólögmæt, sanngjörn eða hvað, heldur einungis um það hvaða ferlar eigi að vera til staðar til að takast á við þau brot. Það er ekki bara mikilvægt að þeir ferlar séu allir lögmætir, skýrir og fyrirsjáanlegir og allt það, eins mikilvægt og það er, þeir þurfa líka að vera til staðar og þeir þurfa líka að vera raunhæfir. Þessi samtök, félagasamtök, og einstaklingarnir sjálfir þurfa að eiga raunhæfan kost á því að leita réttar síns gagnvart aðilum sem eru fjársterkari, þrjóskari og eru reiðubúnir til þess að láta reyna miklu meira á siðferðiskennd hins aðilans heldur en öfugt. Enn vísa ég í greinargerð með málinu og efnistexta þess fyrir lagatæknilegar skýringar á því.

Að því sögðu óska ég þess að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.