151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis.

612. mál
[16:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrsta flutningsmanni málsins fyrir að hafa gert ágætlega grein fyrir því hér í ræðu. Mig langar kannski helst að vera ósammála honum með það að þetta mál sé eitthvert mál framtíðarinnar. Ég held að þetta sé mál samtíðarinnar. Þetta er mál sem hefði eiginlega þurft að klárast fyrir tveimur árum, þremur, fjórum, jafnvel. Það að ríkið stígi af krafti inn í það að styrkja stöðu grænkerafæðis er löngu tímabært. Þess vegna verð ég að lýsa mikilli ánægju með að þessi tillaga sé komin fram. Hún fjallar um matvælamarkaðinn í víða samhenginu, allt frá framleiðslu og inn í mötuneyti hins opinbera og allt þar á milli. Mig langar að fókusa á einn þátt í þessari keðju sem er ríkið og sveitarfélög, sem sagt hið opinbera, sem við eigum sameiginlega, sem neytandi og hvernig kraftur þess neytanda getur haft veruleg áhrif til að styðja við framþróun í þessum málum. Það mætti t.d. segja að opinber mötuneyti gefi eitthvert stærsta sóknarfærið sem við eigum í loftslagsmálum þessa dagana. Ríkið kaupir matvæli fyrir um 3 milljarða á ári og ef það myndi beina þeim kaupum í grænni kost frekar en grárri þá myndi það hafa mikil áhrif á framboð, eftirspurn ríkisins stýrir framboðinu.

Við hv. þingmaður höfum greinilega verið að spá í þessi mál um svipað leyti núna í byrjun árs vegna þess að ég lagði í janúar fram fyrirspurn til tveggja ráðherra varðandi mötuneyti, annars vegar mötuneyti sveitarfélaga og hins vegar mötuneyti ríkisins, bara til að kortleggja þennan markað, sjá hvað mötuneytin eru mörg og hvað þau afgreiða margar máltíðir á hverju ári, hvert kolefnissporið er af þeim og hvernig er unnið að því að draga úr því kolefnisspori í samræmi við aðgerðir í loftslagsmálum. Eins spurði ég hvort það mætti ekki skoða að öll mötuneyti yfir ákveðinni stærð byðu daglega upp á grænkeravalkost eða að ákveðinn hluta daga væri eingöngu grænkerafæði í boði. Það er t.d. það sem var tilkynnt í haust að dönsk stjórnvöld sæju fyrir sér með opinber mötuneyti. Það átti að bæta við einum grænkeradegi í viku en svo var bakkað með það eftir slæm viðbrögð frá svínakjötslobbíinu, ef ég man rétt.

Þessi sóknarfæri eru svo mikil að ég taldi næsta víst að ég fengi skjót svör og þau yrðu mjög jákvæð, en ég er bara búinn að fá annað svarið. Ég lagði fram fyrirspurnirnar í janúar og ég er bara búinn að fá svar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra varðandi það sem snýr að mötuneytum sveitarfélaga. Það svar er kannski auðveldast að súmmera með því að segja að það sé litlu hægt að svara. Þrátt fyrir að við séum með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, aðgerðaáætlun gegn matarsóun, innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila, stefnu um vistvæn innkaup sem hefur verið fylgt frá árinu 2009 og við séum með græn skref í ríkisrekstri í fullum gangi úti um allt samfélag, þá vantar grundvallarupplýsingar sem maður hefði haldið að væru dálítill kjarni í öllum þessum stefnum sem eru í gildi og á að vera að framfylgja.

Svar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra dró hins vegar fram grófa mynd af skalanum. Hjá sveitarfélögum landsins eru yfir 20.000 stöðugildi og væntanlega fleiri einstaklingar sem sinna þeim störfum. Sveitarfélögin starfrækja 157 grunnskóla og 215 leikskóla og innan þeirra eru samanlagt um 65.000 nemendur á hverjum degi. Þar að auki bera sveitarfélögin ábyrgð á mötuneytum fyrir ýmsa þjónustuþega, svo sem fatlað fólk eða eldri borgara. Ef við tökum þetta allt saman þá eru kannski hátt í 100.000 manns á hverjum virkum degi sem skólarnir starfa að fá hádegismat hjá sveitarfélaginu sínu, 100.000 máltíðir í hverju einasta virka hádegi þar sem sveitarfélagið með sinni stefnu tekur ákvörðun um það hvort það eigi að vera rautt kjöt, fiskur, kjúklingur eða umhverfisvænni próteingjafi á diskunum.

Það má ekki skilja tillögu um að leggja áherslu á grænkerafæði sem svo að það sé engin stefna til staðar í dag vegna þess að stefnan er einfaldlega sú að vera með of mikla áherslu á dýraprótein í mötuneytum og á diskum almennt. Tillaga eins og hér liggur fyrir er bráðnauðsynleg til að snúa af þeirri braut.

Í svarinu sem ég fékk frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kom jafnframt fram að mál horfi mögulega til betri vegar. Í lok þessa árs eiga sveitarfélög að vera búin að setja sér loftslagsstefnu og miðað við þá umræðu sem hefur átt sér stað á samstarfsvettvangi sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið þá virðist stemningin vera sú að þetta verði tekið til skoðunar hjá sveitarfélögum. Hins vegar veit ég ekki hver staðan er hjá ríkinu vegna þess að fjármála- og efnahagsráðherra, sem sú fyrirspurn beindist að, er ekki búinn að svara. Ég vænti svo sem ekki miklu betri svara þaðan eða miklu skýrari. Ég vænti þess ekkert endilega að það sé búið að stíga mörg skref í þessa áttina þrátt fyrir t.d. innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila, sem var samþykkt 2019, þar sem kjarni stefnunnar er að innkaup ríkisaðila á matvælum byggi á markmiðum um sjálfbærni, góða lýðheilsu og umhverfisvitund. Þar er jafnframt sagt að framreiddur matur í mötuneytum ríkisaðila eigi að vera í samræmi við ráðleggingar embættis landlæknis um mataræði þar sem er einmitt lögð áhersla á að auka hlut grænkerafæðis í mataræði.

Við verðum sennilega bara að bíða átekta með það að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skili þessum svörum til okkar. Hann gæti reyndar kannski glatt okkur með því að benda á að það sé búið að uppfæra verklag grænna skrefa í ríkisrekstri þannig að núna er komið inn í fjórða skref þeirra, að mig minnir, að eitt af því sem eigi að skoða varðandi grænu skrefin sé próteingjafinn í mötuneytunum. Eitt af þeim skrefum sem á að taka þar sem ríkisaðili rekur mötuneyti er að bjóða upp á valkost eða bjóða upp á umhverfisvænni kost, helst bæði.

Þessu tengt má ég til með að nefna ítrekaða áskorun Samtaka grænkera á Íslandi til sveitarstjórna varðandi framboð á grænkerafæði í leik- og grunnskólum. Hún var send í desember síðastliðnum til allra sveitarstjórna landsins og hlaut nokkuð dræmar undirtektir frá þeim. En hún snýst einfaldlega um það að börn sjálf hafi val um það hvort þau neyti dýraafurða eða ekki. Þetta er eitthvað sem þau hafa sjálf kallað eftir. Kannanir sem hafa náð til barna benda til þess að þau vilji hafa þennan valkost. Þar sem boðið er upp á val á milli hvors tveggja þá kjósa börnin gjarnan með fótunum þannig að einn sjötti hluti þeirra sem borða í mötuneytinu velur græna kostinn.

Þarna erum við kannski aftur komin að þeim punkti sem ég byrjaði á, að þessi þingsályktunartillaga Ágústs Ólafs Ágústssonar og fleiri er engin framtíðarmúsík heldur bullandi samtími yngri kynslóðarinnar vegna þess að fólkið sem er að leiða baráttuna fyrir því að auka framboð og neyslu grænkerafæðis er, og það er engin tilviljun, ungt fjölskyldufólk sem sér í gegnum börnin sín að ósk þeirra um annað en dýraafurðir í mötuneytum er ekki mætt af skólayfirvöldum og (Forseti hringir.) það vill hjálpa börnunum sínum að standa með sinni ákvörðun um það hvað þau vilja láta ofan í sig.