151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis.

612. mál
[16:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst vil ég taka undir það sem hv. þingmaður segir, bændur hafa auðvitað ekkert að óttast við það að við leggjum til að áherslan í mötuneytum eða bara í neyslu almennings verði á eina landbúnaðarafurð frekar en aðra. Það er ekki verið að tala um að fólk fari að borða mat sem verður til í einhverjum allt öðrum hluta samfélagsins en hjá bændum af því að grænkerafæði á náttúrlega uppruna sinn hjá bændum, alveg eins og kjötið. En hvort ég hafi orðið var við andstöðu þá er kannski einfaldast að rifja upp að fyrir rúmum tveimur árum ámálgaði ég það í spurningastíl hvort við ættum kannski að skoða það að taka upp einhvers konar kjötskatt hér á landi, leggja sérstakar álögur á kjöt sem endurspegluðu þann aukna þrýsting sem óhófleg neysla þeirrar vöru leggur á umhverfið og leggur á heilbrigðiskerfið og allt það, og nota þann pening sem kæmi í ríkiskassann til að auðvelda fólki að skipta yfir í græna kostinn, að greiða niður framleiðslu, markaðssetningu og sölu og hvað það er á grænmeti. Viðbrögðin voru ekki jákvæð svona heilt yfir vegna þess að þetta snerti greinilega einhverja taug. Við erum enn þá á þeim stað að fólk tengist eðlilega matardisknum sínum miklum tilfinningaböndum. Ég verð að viðurkenna að ég held að ég hafi sjaldan fengið jafn hávær og neikvæð viðbrögð við nokkru sem ég hef látið út úr mér eins og við þessari spurningu hvort við ættum að skoða það að leggja á kjötskatt til að styðja við neyslu á grænmeti á móti.