151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis.

612. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, við þurfum að taka þessa umræðu. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir, við þurfum að eiga í samræðum við fólk sem kannski nálgast þetta af ákveðinni íhaldssemi eða með tilfinningarökum eða öðru. Svo er til fólk sem óttast um sinn hag hvað þetta varðar, fólk sem er kannski í hefðbundinni kjötframleiðslu. Einn liður í þessu væri kannski að draga fram þá möguleika sem íslenskur landbúnaður hefur þegar kemur að garðyrkjurækt. Nú er ég eins og Pírati og mæti með tölvuna í pontu. Hér í tölvunni minni er yfirlit yfir það grænmeti sem er framleitt á Íslandi. Þetta er miklu meira en mig hafði grunað.

Með leyfi forseta, ætla ég að fara yfir þennan lista yfir grænmeti sem er framleitt núna á Íslandi. Það er blaðlaukur, blómkál, grandsalat, grandþrenna, gulrætur, gúrka, hnúðkál, hvítkál, Íslandssalat, íssalat, jarðarber, kartöflur, kínakál, kirsuberjatómatar, klettasalat, kokteiltómatar, konfekttómatar, paprika, plómutómatar, rauðkál, rófur, sellerí, spínat, spergilkál, steinselja, sveppir, tómatar og vorlaukur. Þetta er samkvæmt lista frá Sölufélagi garðyrkjumanna. Það kemur fólki kannski á óvart hvað við erum þó víðtæk í grænmetisframleiðslu. En ég vil ítreka það að við getum verið miklu stórtækari í grænmetisframleiðslu á Íslandi og farið alls konar leiðir í nýsköpun, vöruþróun, markaðssetningu. Þetta gæti búið til fjölmörg störf um allt land. Þetta er blússandi tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf og þetta er blússandi tækifæri fyrir íslensku bændasamtökin, því að sjálfsögðu förum við í þennan leiðangur með þeim, með íslenskum bændum. Þetta er bara sóknarfæri sem blasir við og helst í hendur við breytta neysluhegðun sem er óumflýjanleg og er nauðsynleg út frá hamfarahlýnun og loftslagsbreytingum og auðlindanýtingu. Verum aðeins á undan að þessu sinni, þó að við ættum að vera búin að taka þetta skref, þetta er tækifæri sem við verðum að tileinka okkur og hinn hefðbundni landbúnaður þarf að koma með okkur í þennan leiðangur.