151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

aðgerðir til að auka framboð og neyslu grænkerafæðis.

612. mál
[16:49]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að styðja heils hugar við þessa þingsályktunartillögu sem ég er meðflytjandi að og sömuleiðis til að taka undir marga afbragðsgóða punkta í ræðum forvera minna í ræðustól þingsins um málið og um framboð og neyslu á grænkerafæði. Það er margt fróðlegt og áhugavert sem kemur fram í greinargerð með málinu. Til að mynda er farið yfir þær skyldur sem hvíla á hinu opinbera þegar kemur að framboði og eftirspurn eftir matvælum, stýringu hins opinbera á því hvernig því getur verið háttað og sömuleiðis hvaða áhrif það getur haft. Í því samhengi langar mig til að minna á tillögu meiri hlutans í Reykjavíkurborg um að bjóða upp á minna kjöt í mötuneytum borgarinnar, tillögu sem vakti mikla athygli, var sett fram árið 2019 og hreyfði við ansi mörgum. Síðast þegar ég vissi til hafði sú tillaga einmitt komið til framkvæmda.

Mig langar líka til að minnast á áskorun til stjórnvalda frá Samtökum grænkera á Íslandi þar sem þau taka fram að í tengslum við hamfarahlýnunina virðist lítið vera á döfinni þegar kemur að þeim þætti er lýtur að neyslu á dýraafurðum. Í yfirlýsingu samtakanna kemur fram að stjórnvöld hafi ekki sent frá sér nein skýr skilaboð varðandi þann þátt þó svo að landbúnaður telji 13% af losun Íslands miðað við Kyoto-bókunina en 21% af losun sem fellur undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Um 50% af þessari losun landbúnaðar er metangaslosun vegna dýraeldis, eins og segir í yfirlýsingu Samtaka grænkera. Þá vil ég líka vekja athygli á fyrri tilmælum og áskorunum sem Samtök grænkera á Íslandi hafa sent öllum sveitarfélögum landsins ásamt leikskólum og grunnskólum um aukið framboð grænkerafæðis í skólum.

Það er svolítið áhugavert að tengja þessar áskoranir frá Samtökum grænkera á Íslandi — sem eru öflug samtök þegar kemur að framboði grænkerafæðis, umræðu um framboð og eftirspurn eftir grænkerafæði og upplýsingagjöf og samfélagslega umræðu um þessa þætti — við það að í vinnu yfirvalda við matvælastefnu til ársins 2030 er hvergi minnst á grænkerafæði. Hvergi er minnst á að auka framboðið á grænkerafæði eða stuðla að því með beinum hætti að ræktun á grænkerafæði verði öflugri og markvissari en nú er. Það er áhyggjuefni vegna þess að nákvæmlega eins og hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson og Andrés Ingi Jónsson hafa bent á er þetta ekki framtíðarmál heldur er þetta mál nútíðarinnar. Sömuleiðis er það ekki bara mál ungu kynslóðarinnar, barna og ungmenna, heldur líka eldri borgara eins og nýleg könnun sýndi, mjög áhugaverð könnun sem birt var í Fréttablaðinu um vilja eldri borgara til að auka hlutfall grænkerafæðis í sinni fæðu. Þetta sýnir að áhugi á breyttum neysluvenjum þegar kemur að framboði og neyslu grænkerafæðis er líka þvert á kynslóðir. Það er vel og því ber að fagna.

Annað sem mig langar til að minna á varðandi matvælastefnuna er að í starfshópi sem skipaður var af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sat enginn fulltrúi Samtaka grænkera á Íslandi, enginn. Fimm fulltrúar voru tilnefndir án tilnefningar af hálfu ráðherra og sex voru tilnefndir af Samtökum iðnaðarins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Neytendasamtökunum og öðrum samtökum en enginn sat í þessum aðgerðahópi frá Samtökum grænkera á íslandi. Þau hafa, að ég veit, gert athugasemdir við þetta og tek ég undir þær athugasemdir.

Mig langar líka til þess að taka undir það sem hér hefur komið fram, og kannski vekja athygli á því, að í endurreisninni og viðspyrnunni hér vegna heimsfaraldursins hafa ekki bara komið fram tillögur frá Samfylkingunni heldur vil ég líka benda á að ríkisstjórnir í nágrannalöndum okkar í Evrópu hafa látið viðspyrnuaðgerðir hverfast um græna viðspyrnu. Stór þáttur í því er matvælaframleiðslan, að beina matvælaframleiðslunni inn á grænni, umhverfisvænni og loftslagsvænni brautir með sköpun starfa í matvælaframleiðslu. Þar eru gríðarleg tækifæri fyrir íslenskan landbúnað. Þessi þingsályktunatillaga og stefnumótandi aðgerðir eru ekki til þess fallnar að búa til átök á milli bænda og þeirra sem vilja auka hlut grænkerafæðis eða á milli grænmetisæta og bænda heldur er um að ræða tækifæri fyrir bændur á Íslandi til að þróa sig áfram þegar kemur að framleiðslu á matvælum í þá átt að bjóða upp á meira úrval grænkerafæðis. Þar höfum við gríðarlega mikil tækifæri eins og líka er komið inn á í greinargerðinni með málinu. Þar er dæmi tekið um að hátt raforkuverð og hár launakostnaður sé eitt af því sem Landbúnaðarháskóli Íslands tali um í nýlegri skýrslu sinni varðandi aukna framleiðslu á grænkerafæði. Ég myndi segja að löngu tímabært sé að lækka raforkuverð til framleiðenda grænmetis og grænkerafæðis.

Mig langar líka til að minna á að við höfum ekki séð nýlega könnun um neyslu þjóðarinnar nema stóra könnun sem gerð var 2011 af hálfu landlæknisembættisins, Matvælastofnunar og rannsóknarstofu í næringarfræði. Árið 2011, fyrir tíu árum síðan, hafði mjólkurneysla minnkað um 23% frá árinu 2002, sem sagt á níu árum, og neysla á kjöti hafði aukist um 17%. Við höfum séð neyslu og framleiðslu á kjöti aukast hér í aðdraganda heimsfaraldursins þegar ferðaþjónustan var í fullum gangi. Þá framleiðslu mátti einmitt að miklu leyti rekja til ferðamanna sem hingað komu og neyslu þeirra á kjöti. Það er líka áhugavert og í raun algjörlega brýnt að gera aðra stóra könnun um mataræði og þróun þess því að það hefur bæði verið gríðarlega mikil gerjun þegar kemur að upplýsingum og vitund fólks um kosti þess að neyta grænkerafæðis og sömuleiðis kosti þess að minnka neyslu á kjöti, helst að draga úr henni, og neyslu á dýraafurðum sömuleiðis. Ég ítreka að með þessu er ekki um að ræða að starfskjörum bændastéttarinnar sé ógnað með einhverjum hætti heldur er um að ræða tækifæri til þess að breikka og útvíkka og þróa landbúnað í þá veru sem neytendur kalla eftir, fyrir utan þær skuldbindingar sem við höfum skrifað undir og erum bundin af er varðar samdrátt á losun vegna loftslagsbreytinga.

Það eru fjórir búvörusamningar í gildi milli ríkis og bænda, það er samningur um nautgriparækt, sem kostaði 7 milljarða kr. á síðasta ári, það er sauðfjársamningurinn, sem kostar 5,2 milljarða kr., það er samningur um grænmetisrækt sem fékk í samanburði 600 millj. kr. í fyrra og svo er það hinn svokallaði rammasamningur sem nær yfir allt sem hinir samningarnir ná ekki yfir, eins og útiræktað grænmeti og korn og nýsköpun. Það er sem sagt staðreyndin, frú forseti, að 85% (Forseti hringir.) af beinum landbúnaðarstyrkjum eru til að framleiða mjólk og rautt kjöt. Er ekki kominn tími til þess að endurskoða þetta styrkjakerfi út frá ákalli samfélagsins um aukið framboð af grænkerafæði? (Forseti hringir.) Jú, frú forseti, ég tel svo vera. Við eigum að vera óhrædd við að stíga þau skref, (Forseti hringir.) við eigum að vera óhrædd við að hlýða kalli neytenda og sömuleiðis að stíga róttækari skref þegar kemur að loftslagsbreytingum og umhverfismálum.