151. löggjafarþing — 95. fundur,  11. maí 2021.

almannatryggingar.

650. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, afnám skerðinga ellilífeyris vegna atvinnutekna. Flutningsmaður auk mín er Inga Sæland.

1. gr.: 3. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Þá skulu atvinnutekjur ellilífeyrisþega ekki skerða ellilífeyri.

2. gr.: Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2022 og koma til framkvæmda 1. febrúar 2022.

Málið var áður flutt á 148. og 149. löggjafarþingi en hlaut ekki brautargengi og er nú endurflutt. Í 31. gr. laga nr. 96/2017 er kveðið á um að ellilífeyrisþegar skuli hafa 100.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna skv. 23. gr. laga um almannatryggingar. Um er að ræða sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara sem kemur til viðbótar við hið almenna frítekjumark laganna sem nemur 25.000 kr. á mánuði. Með lögum nr. 116/2016, um breytingar á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, var m.a. gerð sú breyting á ellilífeyriskerfi almannatrygginga að öll sértæk frítekjumörk vegna einstakra tegunda tekna voru afnumin. Var þess í stað lögfest eitt almennt frítekjumark sem nemur 25.000 kr. á mánuði og gildir það um allar tekjur ellilífeyrisþega, óháð tegund þeirra. Þar áður hafði frítekjumark ellilífeyris almannatrygginga gagnvart atvinnutekjum verið 109.000 kr. Eftir samþykkt laganna kom fram gagnrýni á þessa breytingu að því er atvinnutekjur varðar og hafa komið fram kröfur af hálfu hagsmunasamtaka aldraðra og fleiri aðila um að afnema skerðingar á atvinnutekjur eldri borgara.

Dr. Haukur Arnþórsson vann greinargerð um fjárhagslega stöðu aldraðra fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og ritaði grein um þá rannsókn sína í Morgunblaðið 23. nóvember 2017. Þar kemur fram að afnám skerðingar á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og það sé vel hugsanlegt að ríkissjóður gæti haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni.

Í kjölfar þinglokasamninga sumarið 2019 samþykkti Alþingi að láta framkvæma úttekt á því hver kostnaðurinn yrði ef frumvarpið næði fram að ganga. Félagsmálaráðuneytið fékk Capacent til að framkvæma úttektina. Capacent skilaði úttektinni snemma árs 2020. Samkvæmt niðurstöðum Capacent myndi frumvarpið leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð um 2,1 milljarð kr.

Það vekur upp spurningar þegar tvær úttektir um sama viðfangsefnið skila misvísandi niðurstöðum. Þingmenn Flokks fólksins hafa ítrekað kallað eftir því að fá aðgang að þeim forsendum sem liggja að baki niðurstöðum Capacent en ráðuneytið hefur ekki enn veitt aðgang að þeim.

Óumdeilt er þó að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Því er lagt til að greiðslur til ellilífeyrisþega verði ekki skertar vegna atvinnutekna, sbr. 23. gr. laga um almannatryggingar.

Virðulegur forseti. Frumvarpið sem hér um ræðir er frumvarp sem gefur ríkinu tekjur og frumvarp sem eykur möguleika eldri borgara á að vinna meðan þeir vilja. Á sama tíma verðum við líka að spá í þá sem vilja hætta að vinna. Við verðum að tryggja þeim viðunandi framfærslu sem við gerum að vísu ekki því að allt of stór hópur getur ekki unnið á elliárunum og hefur hvorki heilsu né aðstæður til að stunda vinnu, hefur það lélega framfærslu að það er eiginlega vonlaust að lifa á henni. Í grundvallaratriðum er þó verið að banna einstaklingi að vinna, að refsa einstaklingi fyrir að vinna, eldri borgara sem hefur kannski unnið alla sína tíð og hefur góða heilsu. Það að verða 67 ára er ekki ávísun á að þar með sé viðkomandi óvinnufær, svo langt í frá, en sumir eru það vegna heilsubrests eða veikinda. Þeir sem geta unnið eiga að hafa rétt á því að vinna án skerðingar. Það þýðir í sjálfu sér að ríkið heldur áfram að fá skatttekjur viðkomandi. Þetta stingur svolítið í stúf við þær áhyggjur af framtíðinni að fólksfjölgun sé ekki næg til að standa undir almannatryggingakerfinu okkar, hjúkrunarkerfinu, sjúkrahúsunum og öllu sem við þurfum að standa undir. Það hefur verið bent á að fólksfækkun hér sé orðin það mikil að við þyrftum eiginlega að fæða helmingi fleiri börn bara til að reyna að halda við því sem þörf er á. Á sama tíma og við tölum um að við séum að missa og náum ekki þeim fjölda sem við þurfum til að halda kerfinu uppi með sköttum og vinnu þá erum við með refsingum og þvingunum að reyna að refsa þeim sem vilja halda áfram að vinna sem eldri borgarar.

Það segir sig sjálft að eiginlega gildir nákvæmlega það sama ef við horfum t.d. á vinnu öryrkja. Það er skrýtið að vera tilbúin til að borga fólki ákveðnar upphæðir fyrir að vera í þeirri stöðu sem það er í en þvinga það svo á einhvern furðulegan hátt til að geta ekki bætt sína stöðu þó að hún sé ömurleg. Það segir sig sjálft að einstaklingur sem hættir að vinna 67 ára og ákveður þar af leiðandi að fara á eftirlaun — hann hefði getað haldið áfram vinna og hann hefði verið með hálfa milljón í laun á mánuði — að ríkissjóður tapar þar miklum skatttekjum. Hvað þarf þá til að ná þessum skatttekjum inn sem ríkissjóður er að missa þarna? Jú, það þarf einhvern annan einstakling til að taka við. Það skýtur svolítið skökku við þegar við höfum áhyggjur af því — og það hefur margoft komið fram í umræðum hér á þingi — hverjir eigi að halda uppi kerfinu í framtíðinni. Þannig að öll rök, alveg sama hvernig við horfum á þau, hníga í þá átt að við eigum ekki að banna fólki að vinna, við eigum einmitt að gera þveröfugt, hvetja fólk til að vinna meðan það vill vinna og getur það. En því miður erum við búin að byggja upp almannatryggingakerfi sem er svo bútasaumað skrímsli að það er eiginlega ekki fyrir heilvita mann að reyna að botna í því enda er það yfirleitt bara tölva sem dúkkar upp og segir já eða nei. Það segir okkur líka að við erum komin á þann stað að okkur ber skylda til að endurskoða allt kerfið í heild sinni. Þetta er einn hluti af því.

Annar hluti er atvinnuþátttaka öryrkja og það ótrúlega þvingunarúrræði að ætla að setja eitthvert starfsgetumat þar á. Það kom fram í Svíþjóð á sínum tíma að þegar öryrkjum var leyft að fara út að vinna, finna sér vinnu — þeir fengu skattleysi í tvö ár, og bara að bjarga sér — þá fóru margir út úr kerfinu og 30% skiluðu sér ekki inn í kerfið aftur. Við eigum að vera með gulrót. Við eigum einmitt að reyna að hvetja fólk á allan hátt til að halda áfram að vinna. Það hefur líka margþættan ávinning. Það skilar ekki bara fjárhagslegum ávinningi heldur skilar það líka andlegum og líkamlegum ávinningi vegna þess að það hentar ekki öllum að hætta bara við 67 ára aldur og setjast í helgan stein. Sumum hentar það ágætlega og við eigum að leyfa þeim það og þeir eiga að geta gert það með reisn og lifað góðu lífi á því að fara á eftirlaun. Það vekur líka þá spurningu hvernig við komum fram við þá sem eru aðallega konur og sáu um heimilisrekstur og voru ekki á vinnumarkaðnum og hafa þar af leiðandi engar lífeyristekjur. Þær eru útslitnar, komnar á eftirlaun og hafa enga möguleika á að auka tekjur sínar með vinnu. Það er auðvitað líka þjóðfélögum til skammar að ellilífeyririnn skuli vera svo lágur að fólk geti ekki einu sinni tórað á honum, hvað þá lifað með reisn. Eins og stjórnarskráin segir eigum við að sjá til þess. Við megum aldrei gleyma því að þeir sem þetta varðar eru þeir sem byggðu upp landið, þeir sem komu landinu á þann stað sem það er á í dag. Við eigum að sýna þeim fulla virðingu með því að leyfa þeim að ákveða sjálf hvort þau vilja vinna. Ef þau vilja vinna eigum við ekki að setja steinvölu, hvað þá heilu björgin, í veg fyrir þau til að reyna að koma í veg fyrir að þau geti stundað vinnu, með því að það sé hreinlega tap fyrir þau ef þau ætla að þrjóskast við að vinna áfram.

Þess vegna vona ég að núna í þriðja skiptið sem ég mæli fyrir þessu frumvarpi þá komist það í gegn og að það muni skila því að við getum byrjað aðeins að taka á þessu almannatryggingakerfi sem er svo illa uppbyggt í dag og er búið að stagbæta svo oft að það segir sig sjálft að við verðum og eigum og okkur ber skylda til að einfalda það þannig að allir geti lifað með reisn og allir geti tekið ákvörðun um það hvort þeir vilji halda áfram að vinna eða ekki.