Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

ástandið á Gaza.

[13:07]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég get ekki annað séð en að svar hæstv. utanríkisráðherra undanfarna daga, það sem við höfum séð í fjölmiðlum, virðist vera að gera ekki neitt nema einhver annar geri það fyrst. Það er það sem við erum að sjá. Það er hægt að hafa alls konar orð uppi en þetta snýst um aðgerðir og við getum alveg sýnt gott fordæmi þó að aðrar þjóðir séu ekki á undan okkur. Við getum alveg leitt leiðina. Ég spyr bara: Hvað er svoleiðis afstöðuleysi annað en bara fullkominn heigulsháttur? Að sama skapi hefur þingflokkur VG gefið út einhvers konar yfirlýsingu um helgina þar sem landtökustefna Ísraels er fordæmd, gott og vel, en málfundaæfingar þingflokks forsætisráðherra eru innantómt hjal miðað við þær raunverulegu aðgerðir sem forystuflokkur í ríkisstjórn Íslands gæti sett í gang ef hann raunverulega vildi. Þingflokkur Pírata mun leggja fram þingsályktunartillögu þar sem Alþingi fær tækifæri til að fordæma landtökustefnu og árásir stjórnvalda í Ísrael á óbreytta íbúum Palestínu. (Forseti hringir.) Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort hún telji að hún geti stutt þá þingsályktunartillögu.