151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

ástandið á Gaza.

[13:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég og mín hreyfing leggjum mjög mikið upp úr því að mál á borð við þessi séu leyst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þess vegna höfum við verið að beita okkur fyrir því að þeir aðilar sem við erum í mestum samskiptum við þar innan borðs, sem eru norsk stjórnvöld, hafi okkar afstöðu á hreinu og það liggur algerlega fyrir hver hún er. Ísland viðurkenndi sjálfstæði Palestínu og var meðal fyrstu ríkja til að gera það. Raunar var ég í ríkisstjórn þegar það var gert, bara til að rifja það upp fyrir hv. þingmanni sem kallar hér eftir aðgerðum. Afstaða Íslands til ólögmætrar landtöku Ísraels er algerlega klár og henni hefur ítrekað verið komið á framfæri á alþjóðavettvangi. Það er mitt mat og mat ríkisstjórnarinnar að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sé sá rétti vettvangur sem eigi að taka á þessum málum. Það er það sem ég mun hafa að segja við utanríkisráðherra bæði Bandaríkjanna og Rússlands um þessi mál því að það skiptir máli að þetta sé leyst á þeim vettvangi sem þjóðir heims hafa komið sér saman um að eigi að vera vettvangur til að leita lausna í jafn flóknum málum og þetta mál er.