Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

afstaða ríkisstjórnarinnar til átakanna á Gaza.

[13:14]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Já, ég tek undir með hæstv. forsætisráðherra, það skiptir mjög miklu máli að rödd Íslands sé skýr. Við stöndum með mannréttindum og við tölum hátt og skýrt, hvort sem það eru vinaþjóðir okkar eða einhverjir aðrir sem fara gegn óbreyttum borgurum með þeim hætti sem t.d. Ísraelsher gerir nú í dag. Það skiptir máli og það skiptir líka máli að við tölum hárri röddu fyrir friðsamlegri lausn, fyrir vopnahléi, hvar sem við stígum niður.

Þess vegna spyr ég: Með hvaða hætti mun hæstv. forsætisráðherra taka upp málið við utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, þegar hann kemur hér í vikunni? Mun forsætisráðherra tala fyrir ályktun þingflokks Vinstri grænna eða mun hún tala fyrir afstöðu ríkisstjórnar Íslands? Þetta þarf að vera skýrt því að það er áherslumunur þarna á. Það sem er vont varðandi utanríkisstefnu okkar nú síðastliðin 3 til 4 ár er að hún er tiltölulega óskýr á köflum, af því að við vitum að það er áherslumunur, og miklu meira en það, á ríkisstjórnarflokkunum og það er ágætt að menn hafi það í huga. Þess vegna skiptir máli og er þýðingarmikið að forsætisráðherra tali skýrri röddu við utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fordæmi m.a. árásir Ísraelshers á Palestínumenn af því að það eru mannréttindabrot sem þar er um að ræða. Ég hvet hæstv. ráðherra til að tala skýrt.