151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

afstaða ríkisstjórnarinnar til átakanna á Gaza.

[13:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ég mun tala skýrt hér eftir sem hingað til. Ég hef nýtt öll tækifæri mín á alþjóðavettvangi til að tala fyrir friðsamlegum lausnum. Það sem ég mun taka upp við þá ágætu menn sem hingað koma er að mælast til þess að þessi ríki, sem skipta svo miklu máli í alþjóðasamfélaginu, beiti sér í fyrsta lagi fyrir vopnahléi og í öðru lagi fyrir einhvers konar langtíma friðsamlegri lausn. En fyrst þarf auðvitað að koma á vopnahléi því að núna er fólk að deyja, óbreyttir borgarar, karlar, konur og börn, en þar til vopnahléi hefur verið náð getur enginn sest niður til að ræða á hvaða grunni eigi að byggja friðsamlegar lausnir. Þar er afstaða íslenskra stjórnvalda, ekki bara þingflokks Vinstri grænna, algerlega skýr. Íslensk stjórnvöld hafa viðurkennt sjálfstæði Palestínu. Það er afstaða íslenskra stjórnvalda og íslensk stjórnvöld vilja (Forseti hringir.) að lausnin til framtíðar byggist á tveggja ríkja lausn. (Gripið fram í.) Ég tel þessar árásir algjörlega (Forseti hringir.) óásættanlegar. Þær eru brot á alþjóðalögum og það er okkar skýra afstaða.