Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

verðtrygging og verðbólga.

[13:17]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði í viðtali á RÚV þann 31. mars 2020, með leyfi forseta:

„Það er alveg á hreinu að það verði forgangsatriði hjá okkur að verja stöðu fólks fyrir þessum skakkaföllum eftir þeim leiðum sem færar eru í því.“

Þann 5. maí síðastliðinn sendu Hagsmunasamtök heimilanna frá sér áskorun til ríkisstjórnarinnar um að hún efni loforð sín um að bregðast við til að verja heimilin fyrir áhrifum verðbólgu. Í yfirlýsingu samtakanna segir, með leyfi forseta:

„Einnig er vert að benda á að þó að margir hafi flúið verðtrygginguna á undanförnum mánuðum er það alls ekki á allra færi. Það eru einmitt þau sem verst standa sem ekki geta flúið verðtryggða leigu eða húsnæðislán. Það er engan veginn réttlætanlegt að þau greiði hæsta gjaldið vegna ástands sem þau bera enga ábyrgð á.

Það er algjörlega óásættanlegt að áhrifa þessa ástands á verðtryggð lán heimilanna gæti um ókomna tíð, því þegar verðtryggðu lánin hafa einu sinni hækkað þá lækka þau ekki aftur.

Í þessu felst einmitt einn stærsti galli verðtryggingarinnar. Heimilin súpa seyðið um alla framtíð vegna tímabundinnar hækkunar verðbólgu, á meðan lánveitendur hagnast um langa framtíð á þessari sömu tímabundnu hækkun.“

Verðbólga hefur aukist statt og stöðugt undanfarið ár og mælist nú 4,6%. Þá er verðbólga nú farin af stað í Bandaríkjunum og mælist þar einnig 4,6% en hefur ekki mælst jafn mikil síðan í september 2008. Við verðum að grípa til aðgerða strax áður en verðbólgan eykst frekar.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað ætlar þessi ríkisstjórn að gera nú þegar aðeins nokkrar vikur eru eftir af löggjafarþinginu til að vernda heimilin í landinu fyrir verðbólgunni? Og hvers vegna styður hæstv. forsætisráðherra ekki frumvarp Flokks fólksins um að setja tímabundið þak á verðtryggingu húsnæðislána og banna slík lán?