151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

verðtrygging og verðbólga.

[13:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið en það veit hamingjan að ég var alls ekki að spyrja um alla þá snilli sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna í þessum Covid-faraldri. Ég var eingöngu að reyna að draga fram verðtryggð húsnæðislán heimilanna með tilliti til þess hversu gríðarleg hækkun verður á höfuðstól þeirra lána og með tilliti til þess að nú hefur verðbólgan tæplega tvöfaldast miðað við verðbólguviðmið Seðlabankans. Til gamans, þó það sé bara alls ekkert gaman, ætla ég samt sem áður í beinu framhaldi að benda á Bandaríkin, það er alveg ótrúlegt, það vita það allir, að ef bandaríska hagkerfið hnerrar þá fær það íslenska kvef og verðbólgan í Bandaríkjunum hefur hækkað hvorki meira né minna frá því í apríl 2020 úr 0,3% í 4,6% og þar af frá því núna í mars úr 2,6% í 4,6. Þetta er gríðarlegt áhyggjuefni og þess vegna lýsum við í Flokki fólksins þungum áhyggjum. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra aftur, fyrst þau eru að gera svona mikið fyrir alla: Hvers vegna í ósköpunum tekur ríkisstjórnin (Forseti hringir.) ekki nú þegar utan um heimilin og gerir eitthvað til að koma í veg fyrir hækkun verðtryggðra skuldbindinga vegna verðbólgu af völdum þessa faraldurs (Forseti hringir.) og að hún bitni eins gífurlega á þeim og útlit er fyrir?