151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

svar við fyrirspurn.

[13:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Það eru að verða u.þ.b. tveir mánuðir síðan ég sendi fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um ríkisstyrki til sumarnáms. Ég spurði hvernig þær 500 milljónir kr. hefðu nýst sem stjórnvöld ákváðu að veita til háskóla á síðastliðnu ári svo unnt væri að bjóða námsmönnum upp á sumarnám. Þetta var Covid-tengd aðgerð. Ég spurði m.a. hvort þess hefði verið gætt af hálfu stjórnvalda að þessi ríkisstyrkur væri ekki nýttur til að niðurgreiða þjónustu sem er í beinni samkeppni við einkarekin fræðslufyrirtæki sem bjóða sambærileg námskeið. Fyrirspurninni hefur á tveimur mánuðum ekki verið svarað. Ég ætla að ganga út frá því að það sé ekki vegna flækjustigs fyrirspurnarinnar heldur vegna vandræðalegra svara, vegna þess að nú berast fréttir af því að annað árið í röð eigi að veita slíka ríkisstyrki og annað árið í röð eru ríkisháskólarnir farnir að auglýsa námskeið gjaldfrjálst, eða fyrir 3.000 kr. að hámarki, námskeið sem eru í beinni samkeppni við námskeið hjá einkareknum fræðslufyrirtækjum. Ég velti því fyrir mér hvort svaraleysið tengist rómuðu áhugaleysi ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á gangverki atvinnulífsins.

Herra forseti. Ég óska eftir aðstoð við að fá þessi svör frá hæstv. menntamálaráðherra.