151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

svar við fyrirspurn.

[13:50]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að forseti Alþingis sé eitthvað meira en bara fundarstjóri á einhverjum málfundi. Þetta er alvarlegt mál. Ég vitnaði hér í lögfræðiálit frá Alþingi þar sem mjög skýrt er talað um að þingsályktanir séu bindandi fyrir ríkisstjórnina. Hér segir forseti Alþingis líka, með leyfi forseta:

„Það er jafnframt niðurstaða þessarar samantektar að ríkisstjórninni, eða eftir atvikum hlutaðeigandi ráðherra, ber að eiga frumkvæði að því að upplýsa Alþingi ef hún hyggst ekki fylgja eftir ályktun þess.“

Það hefur ekki gerst. Það er alvörumál. Hér eru þúsundir fatlaðra einstaklinga og fjölskyldur þeirra sem hafa bundið vonir við að þetta skref verði stigið til fulls. Við erum búin að ákveða að stíga þetta skref og við myndum öll stækka við að ganga frá þessari lögfestingu. Við myndum bæta líf og mannréttindi þess hóps sem við eigum að hugsa hvað mest um. Þess vegna skil ég ekki af hverju það hefur ekki verið gert. Tíminn hefur verið nægur. Það eru tvö ár síðan við samþykktum þessa þingsályktun, þannig að ég skil ekki af hverju ríkisstjórnin kemur ekki fram með þetta frumvarp eða a.m.k. einhverjar skýringar.

Forseti. Í guðanna bænum beittu þér nú fyrir því að þingsályktun, sem í eðli sínu er viljayfirlýsing þingsins, sé virt. Þó að það væri nú ekki meira en það.