Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 96. fundur,  17. maí 2021.

svar við fyrirspurn.

[13:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég kem hingað upp vegna orða hæstv. forseta um að við gætum notað fyrirspurnatíma þegar svo bæri undir og viðkomandi ráðherrar væru í salnum. Það er algerlega fráleitt að stinga upp á því — ég vona að þetta hafi verið meira í gamni gert — að við notum þær fáu dýrmætu mínútur sem við höfum til að eiga í pólitísku samtali við fulltrúa framkvæmdarvaldsins hér inni í að kalla eftir því að hæstv. ráðherrar vinni vinnuna sína. Það á einfaldlega að vera nóg, sé málum þannig fyrir komið. Það er réttur þingmanna, fyrir hönd sinna umbjóðenda, að kalla eftir þessum svörum. Það liggur fyrir í þingsköpum hver svartíminn á að vera. Ég ætla bara að upplýsa hæstv. forseta og ráðherra um að ég mun nota þetta fundarform, fundarstjórn forseta, þar til ég fæ þau svör sem ég óskaði eftir við þeim spurningum sem ég lagði fram fyrir tveimur mánuðum.